Fara í efni

EKKI UNNIÐ FYRIR GÝG

SMUGAN logo
SMUGAN logo

Birtist á Smugunni 02.04.13.
Margir eru daprir aðrir reiðir yfir því að ný stjórnarskrá hlaut ekki samþykki á Alþingi fyrir þinglok. Sjálfum þykir mér slæmt að þeir þættir sem samþykktir voru sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október skyldu ekki vera kláraðir. Þar nefni ég auðlindir í þjóðareign, beint lýðræði, jöfnun kosningaréttar og aukna möguleika á persónukjöri í Alþingiskosningum.

Forgangsröðun er mikilvæg

Það hefði sennilega verið farsælla fyrir stjórnarmeirihlutann að taka þessa þætti sérstaklega fyrir fremur en að reyna að koma allri stjórnarskránni í gegn. Þar var margt órætt, en sem dæmi má nefna hvort auka eigi miðstýringarvald forsætisráðherra frá því sem nú er eins og kveðið er á um í drögunum. Um þetta hefur nánast ekkert verið rætt opinberlega. Þá þyrfti að mínu mati að breyta einka-eignarréttarákvæðinu sem stjórnlagaráð lætur standa óbreytt frá fyrri stjórnarskrá en það tel ég vera barn síns tíma. Það er fráleitt að mínum dómi að leggja að jöfnu eign á borð við heimili, fyrirtæki og bújörð annars vegar og milljarða-auðæfi hins vegar í hvaða formi sem þau kunna að vera; að hvort tveggja eigi að vera bundið í stjórnarskrá sem heilagur réttur er aldeilis fráleitt.
Það sem máli skiptir hins vegar varðandi hin grundvallaratriðin sem áður eru nefnd og sem þjóðin hefur verið spurð beint um, þá verður þar ekki snúið til baka. Um það er ég sannfærður þótt ekki treysti ég mér til þess að spá um tímasetningar.
Allt áhugafólk um stjórnarskrárumbætur þarf á yfirvegun að halda og að vanda sig við alla forgangsröðun. Það voru sem áður segir ótvíræð mistök að ætla að reyna að gleypa allan stjórnarskrárpakkann í einu lagi í stað þess að einbeita sér að þeim þáttum sem þjóðin hafði tekið tekið afstöðu til.

Vatnið

En það voru fleiri mál sem urðu undir á síðustu dögum þingsins. Og eitt var það mál sem tók mig sárar en flest annað: Breytingar á auðlindalöggjöfinni náðu ekki fram að ganga  en þar var lagt til að færa grunnvatnið undan einkaeignarrétti í nýtingarrétt á sama hátt og gildir um yfirborðsvatnið. Flestir umsagnaraðilar voru þessu sammála, þar á meðal Samband íslenskra sveitarfélaga, en bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn lögðust gegn þessu þótt lítið færi fyrir því í fjölmiðlum. Í mínum huga var þetta stærsta mál þingsins. Þetta er grundvallarmál, mál sem er svo stórt í sniðum að um það eru dregin landamæri í pólitíkinni. Hér reynir á grundvallarhugsjónir og verður viðfangsefni að nýju þegar þing kemur saman eftir kosningar.

Mannúðarmál og spilavandinn

Mér þótti líka afleitt að ný útlendingalög næðu ekki fram að ganga en þar hefði fengist mikil réttarbót fyrir þá sem lögin taka til auk þess sem löggjöfin yrði gagnsærri, mannúðlegri og markvissari.
Mér þótti líka slæmt að lög um happdrætti og fjárhættuspil náðu ekki fram á Alþingi. Því miður urðu æði margir til að bregða fæti fyrir málið stundum á mjög undarlegum forsendum. Með þessum lögum hefði verið tryggt fjármagn til að aðstoða þá sem verða spilafíkninni að bráð. Lög og reglur um fjárhættuspil eru lakari hér á landi en gerist nokkurs staðar í löndunum í kringum okkur.

Vinnunni ekki á glæ kastað!

Fleira gæti ég nefnt sem ég hefði viljað sjá verða að lögum fyrir þinglok. En ekki síður gæti ég nefnt þjóðþrifamál sem náðu fram að ganga svo sem lög um náttúruvernd. Með þeim verða kaflaskil í þágu náttúrunnar.
En gleymum því ekki að þótt mikilvæg mál sem á okkur brenna hafi ekki fengið samþykki núna þá er vinnan að baki ekki unnin fyrir gýg. Það kemur nefnilega alltaf dagur eftir þennan dag, þing eftir þetta þing.
En þá skiptir líka máli að hlusta eftir því hvað frambjóðendur segja - þ.e. þegar fagurgalanum sleppir.

Slóðir um skylda umræðu:
https://postur.althingi.is/owa/redir.aspx?C=R-U_WdksQkCsx5TT7k9-ZNODgyHhA9AILbI6c2iFf7hqGqnCrpMpuJmwqQgN94LR96S0iUcDEu8.&URL=http%3a%2f%2fogmundur.is%2fstjornmal%2fnr%2f6617%2f

https://postur.althingi.is/owa/redir.aspx?C=R-U_WdksQkCsx5TT7k9-ZNODgyHhA9AILbI6c2iFf7hqGqnCrpMpuJmwqQgN94LR96S0iUcDEu8.&URL=http%3a%2f%2fogmundur.is%2fannad%2fnr%2f6607%2f

https://postur.althingi.is/owa/redir.aspx?C=R-U_WdksQkCsx5TT7k9-ZNODgyHhA9AILbI6c2iFf7hqGqnCrpMpuJmwqQgN94LR96S0iUcDEu8.&URL=http%3a%2f%2fogmundur.is%2fannad%2fnr%2f6603%2f

https://postur.althingi.is/owa/redir.aspx?C=R-U_WdksQkCsx5TT7k9-ZNODgyHhA9AILbI6c2iFf7hqGqnCrpMpuJmwqQgN94LR96S0iUcDEu8.&URL=http%3a%2f%2fogmundur.is%2fannad%2fnr%2f6587%2f