EKKI VIL ÉG SÝKJAST EN SAMT…
… já, og ég vil að sýnum ítrustu varkárni og þess vegna virði ég ábendingar sóttvarnarteymisins, en samt, samt finnst mér varnaðarorð Halldórs í einni af brilljant skopteikningum sínum í Fréttabalaðinu til að hafa í huga.
Hópsálin lætur ekki að sér hæða.
Hún er hættuleg.
Hún hrífur fólk með sér og fyrr en varir er sú hætta fyrir hendi að við verðum viðskila við eigin dómgreind.
Og nú fara hugrenningartengslin á flug.
Mér verður hugsað til Sendiboðans eftir japanska höfundinn Yoko Tawada sem bókaútgáfan Angústúra gaf út í sumar.
Ég lagði þá út af bókinni örfáum orðum þar sem ég dáðist að hugmyndaflugi höfundar, “hvernig hún lék sér á mörkum margra heima, gerði hið óraunverulega raunverulegt og raunveruleikann óræðan.”
Og nú þegar raunveruleikinn gerist sífellt óraunverulegri þá hefði mátt ætla að þessi bók hlyti að hafa verið skrifuð eftir Kóróna-veiru.
En svo var ekki.
Sumir eru einfaldlega meira leitandi en aðrir og rata fyrir bragðið inn í veruleika sem við flest héldum að aldrei yrði.