ELDFJALLAGARÐUR – NÝ SÝN OG NÝ TÆKIFÆRI Á REYKJANESSKAGA
Í dag fór fram í Hafnarfirði einhver áhugaverðasta ráðstefna sem ég hef sótt í langan tíma. Yfirskrift ráðstefnunnar var sú sama og fyrirsögn þessa pistils. Á ráðstefnunni voru haldnar fimm framsögur hver annarri áhugaverðari. Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur fjallaði um jarðfræði Reykjanesskagans. Fyrirlestur Ástu Þorleifsdóttur, jarðfræðings bar heitið, Eldfjallagarður: Atvinna, fræðsla og útivist. Bergur Sigurðsson, frkvstj. Landverndar fjallaði um álver og orkuvinnslu, Jónatan Garðarsson, þáttagerðarmaður hélt erindi sem hann kallaði einfaldlega Reykjanessfólkvangur. Fimmta erindið var hugvekja séra Gunnars Kristjánssonar prófasts: "Útsprunginn fífill" Endalok stóriðju?
Hugvekju séra Gunnars er að finna hér á síðunni. Ég hef einnig fengið afar fróðlegt erindi Jónatans Garðarssonar sem hann hafði reyndar aðeins til hliðsjónar því hann mælti að mestu leyti af munni fram. Hinn skrifaði texti Jónatans fylgir hér á eftir.
Reykjanesfólkvangur
Dr. Siguður Þórarinsson jarðfræðingur átti hugmyndina að stofnum fólkvangs á Reykjanesi en þegar hann var að skoða verksumerki eftir fjósbygginguna í Krýsuvík 1948 blöskraði honum að sjá hvernig hluta af uppgreftrinum hafði verið ýtt fram af brún Grænavatns, sem er merkilegur sprengigígur. Honum fannst að menn hefðu ekki gert sér grein fyrir hverskonar náttúrufyrirbæri gígurinn er og full ástæða til að vernda náttúruna fyrir framkvæmdagleði manna.
Náttúruverndarlög voru sett 1956 og þar var gert ráð fyrir að sveitarfélög gætu stofnað fólkvanga en að þjóðvangar yrðu í ríkiseign. Málefni Reykjanesfólkvangs var tekið upp aftur 1968 þegar skipulagsstjóri boðaði fulltrúa Náttúruverndarráða á Stór-Reykjavíkursvæðinu til samráðsfundar. Þar var skipuð samstarfsnefnd sem átti að gera tillögu um hvaða náttúrvætti bæri nauðsyn til að friða á svæðinu. Dr. Sigurður Þórarinsson var formaður samstarfsnefndarinnar og í október 1969 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur samhljóða hugmynd um stofnun Reykjanesfólkvangs sem átti að ná frá Elliðavatni að Krýsuvíkurbergi. Ætlunin var að sameina Heiðmörk, Bláfjallasvæðið, Krýsuvíkurland og Herdísarvíkurland.
Eftir langan meðgöngutíma og margskonar hræringar var ákveðið að einskorða Reykjanesfólkvang við núverandi mörk. Ástæðan var sú að ekki náðist full samstaða um svo stórt svæði innan þeirra sveitarfélaga sem tengdust málinu. Þessvegna var ákveðið að fólkvangurinn spannaði um 300 km2 landsvæði. Það er stærð fólkvangsins í dag, rúmum 30 árum seinna og er hann enn sem komið er langstærsta friðlýsta svæði sinnar tegundar hér á landi. Hinsvegar er Reykjanesið allt um 1700 ferkílómetrar.
Reykjanesfólkvangur var stofnaður með reglugerð sem tók gildi 1. desember 1975. Sveitarfélögin sem standa að fólkvangnum eru: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær. Stjórn fólkvangs er í höndum þessara sveitafélaga í samráði við Umhverfisstofnun. Fulltrúi Reykjavíkur er formaður stjórnarinnar þó Reykjavík eigi ekki land í fólkvangnum.
Mörk fólkvangsins að austan eru sýslumörk Gullbringu- og Árnessýslu. Að norðan tengist hann Bláfjallarfólkvangi. Vesturmörk fólkvangsins eru vestan við Undirhlíðar og Núpshlíðarháls fram í sjó við Selatanga. Og suðurmörkin fylgja strandlínunni.
Reykjanesfólkvangur samanstendur að stórum hluta af gróðursnauðum móbergshæðum, hraunum og fjöllóttu landslagi. Tveir áberandi fjallshryggir liggja eftir fólkvangnum miðjum og eru í NA-SV stefnu, eins og sprungureinarnar sem ganga úr Atlantshafinu og taka land á Reykjanestá. Þessi hryggur skiptir Reykjanesinu á milli Evrasíu flekans og Ameríkuflekans sem gerir svæðið einkar áhugavert fyrir jarðfræðinga og aðra sem velta slíkum málum fyrir sér.
Stærstu fjallahálsarnir nefnast Núpshlíðarháls og Sveifluháls. Núpshlíðarháls er vestar og er þessvegna oft kallaður Vesturháls og Sveifluhás kallast Austurháls. Hæstu hnúkar og tindar á þessum hálsum ná upp í um 300-400 metra hæð yfir sjó.
Brennisteinsfjöll eru austast í fólkvanginum en þar ná nokkur fjöll upp í 500-600 metra hæð. Það má til dæmis nefna Hvirfil, Kistufell, Eldborgir og Vörðufell. Langahlíð, eða Lönguhlíðar, eins og mér var kennt að segja, er fjallshryggurinn sem liggur austan og norðan við Kleifarvatn, og snýr bröttum fjallsveggjum sínum á móti Hafnarfirði og Höfuðborgarsvæðinu.
Sunnan og vestan fjallanna þar sem hallar niður að Kleifarvatni nefnist hlíðin Vatnshlíð, frá Vatnshlíðarhorni að hinu nafnkunna felli Gullbringu, sem öll sýslan er nefnd eftir. Nokkru sunnar er Geithöfði, Lambafellin og lengra í austurátt er Geitahlíð. Nálægt hinu forna Krýsuvíkurhverfi eru tvö móbergsfell, Arnarfell og Bæjarfell. Skammt suðvestur af Krýsuvíkurkirkju er áberandi toppmyndað fell sem nefnist Mælifell, oftast kallað Krýsuvíkur-Mælifell, til aðgreiningar frá Skála-Mælifelli.
Nyrst í Núpshlíðarhálsi eru tvö fjöll, eða hæðir sem nefnast Grænadyngja og Trölladyngja. Þær eru mjög áberandi þegar horft er frá Hafnarfirði, en það fjall sem mest ber á er að sjálfsögðu Keilir, en svo einkennilega vill til að Keilir er ekki innan Reykjanesfólkvangs.
Eina stóra stöðuvatnið er Kleifarvatn. Það er um 10 km2 að stærð og þar sem það er dýpst, í gjánum austur af Syðri-Höfða, nær það 97 metra dýpt. Sunnan vatnsins eru tjarnir, votlendi og smálækir sem renna í það. Kleifarvatn er á margan hátt undarlegt stöðuvatn sem byggir vatnsbúskap sinn að miklu leiti á regnvatni, og það rignir talsvert mikið í Krýsuvík. En það er fleira sem kemur til, sem ekki er eins augljóst. Vatnsborðið sveiflast verulega á um 20 ára fresti, þrátt fyrir að Kleifarvatn sé afrennslislaust ofan jarðar. Ástæðan er sú að sprungur í botni vatnsins opnast við jarðhræringar og þegar svo ber undir minnkar í Kleifarvatni. Þetta kom glögglega í ljós árið 2000 þegar vatnsborðið lækkaði um 4 m og ummál vatnsins minnkaði í 8 km2. Nokkur merkileg gígvötn og tjarnir eru innan fólkvangsins, merkust þeirra eru Djúpavatn, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augun, en auk þeirra má finna dæmigert heiðarvatn á Krýsuvíkurheiði sem nefnist Bleiksmýrartjörn, líka nefnt Arnarfellsvatn.
Reykjanesfólkvangur er víða þakinn hraunum og mörg þeirra hafa runnið í sjó fram. Það er fagur að skoða hraunfossana sem hafa steypst fram af fjöllunum niður á láglendið. Þar má nefna Fagradalshraun, Tvíbollahraun og hinn tilkomumikla hraunfoss Víti, sem fáir hafa séð. Krýsuvíkurland frá Kleifarvatni að Krýsuvíkurbergi er þakið jarðvegs og gróðurþekju, sem er ofan á nokkrum lögum af hraunum. Þessi hraunlög sjást ágætlega þegar samsetning landsins við Krýsuvíkurberg er skoðað.
Það eru nokkur ung hraun í Reykjanesfólkvangi, þar á meðal eru miklir hraunmassar sem flæddu víða í Krýsuvíkureldum sem stóðu yfir frá 1151-1180 eftir því sem vísindamenn telja. Ögmundarhraun myndaðist á sunnanverðum skaganum í goshrynunni árið 1151. Talið er að gamla Krýsuvík í Húshólma hafi að mestu horfið undir hraunflóðið. Þar eru allavega merkar minjar sem lítill gaumur hefur verið gefinn til þessa. Á sama tíma rann Nýjahraun, eða Bruni á norðanverðum Reykjanesskaga, en það hraun nefnum við Hafnfirðingar jafnan Kapelluhraun, þó það nafn eigi aðeins við um nyrsta hluta Nýjahrauns.
Krýsuvíkureldar stóðu yfir ein 30 ár og þá varð hluti Kaldárhrauns til, sem kom úr mörgum smágígum við Undirhlíðar og Helgafell; einnig Mávahlíðarhraun skammt frá Fjallinu eina og Traðarfjallahraun í Móhálsadal.
Víðáttumikil hraun sem eru í stórum hluta bæjarlands Hafnarfjarðar runnu úr gígum í Grindaskörðum og Þríhnúkum á sögulegum tíma, eftir landnám. En yngstu hraunin komu í eldgosi í Brennisteinsfjöllum, sem átti sér sennilega stað í kringum 1340 eða 1380. Þessi hraun eru því ekki nema rúmlega 600 ára gömul ef rétt reynist.
Við suðurströnd fólkvangsins eru tvær litlar víkur, Hælsvík og Keflavík og milli þeirra er strandbergið Krýsuvíkurberg, sem er eitt merkilegasta fuglabjarg landsins. Þar eru um 100 þúsund sjófuglar. Mest er af svartfugli, þ.e. álku, langvíu og stuttnefju, en einnig er nokkuð af toppskörfum, silfurmáfum og fýlum, eða múkka eins og sjómenn kalla þann ágæta fugl. Krýsuvíkurberg er ennþá nytjað af Björgunarsveit Hafnarfjarðar, en áður fyrr var bergið ein helsta matarkista Krýsuvíkinga og nærsveitunga.
Það eru merkar menningarminjar víða í Reykjanesfólkvangi, sem tengjast búskap fyrri alda, en einnig má finna nýlegar minjar frá síðustu öld. Krýsuvík var lengi höfuðból og heimajörðinni fylgdu nokkuð margar hjáleigur. Krýsuvík var heil kirkjusókn á sínum tíma og þótti afskaplega góð jörð á meðan sjálfsþurftarbúskaður var stundaður á Íslandi. Beitilandið var svo gjöfult að sauðfé var látið ganga sjálfala árið um kring, það var stutt á fiskimiðin sem gáfu vel í aðra hönd, í Krýsuvíkurbergi var nóg af fuglakjöti og eggjum, og rekaviður skaffaði efnivið í hús og báta og allskyns amboð.
Þrátt fyrir allt þetta fór Krýsuvíkurjörðin hægt og sígandi í eyði á fyrri hluta 20. aldar, eftir að stórskáldið Einar Benediktsson eignaðist hana ásamt norskum fjármálamanni. Það var sennilega tímanna tákn að skáldjöfurinn var á fallanda fæti á sama tíma og landsmenn voru að skipta um gír og hverfa frá sveitunum til að setjast að í þéttbýlisstöðunum við sjávarsíðuna þar sem góð hafnaraðstaða skipti meginmáli.
Þegar Hafnarfjarðarbær eignaðist Krýsuvíkurjörðina um 1941 var Magnús Ólafsson síðasti íbúi Krýsuvíkur nánast kominn að fótum fram. Hann var fluttur nauðungarflutningi til Hafnarfjarðar eftir að hafa fengið slag, og um svipað leyti var bílvegurinn til Krýsuvíkur fullgerður. Þar með lauk hinni gömlu búsetu í Krýsuvík eftir tíu alda langa sögu, en nýi tíminn megnaði ekki að endurreisa staðinn á þann hátt sem ætlunin var. Ætlunin var að virkja hverina í Seltúni og Hverahvammi til að framleiða raforku, en þær áætlanir runnu út í sandinn. Nú hefur verið gefið út rannsóknarleyfi í Krýsuvík til Hitaveitu Suðurnesja sem hyggst setja virkjun á laggirnar í þessum miðdepli fólkvangsins ef ráðist verður í byggingu álvers í Helguvík.
Það stafar margskonar hætta að Reykjanesfólkvangi. Innan hans eru þrjár stóar efnisnámur. Ein við Bláfjallaveg sem fer sífellt stækkandi, ein við Vatnsskarð og sú þriðja í gígaröð Ögmundarhrauns nærri Latsfjalli. Nokkrar gamlar námur eru einnig til staðar, ein við Vatnshlíðarhorn og önnur þar sem Litla-Eldborg var undir Geitahlíð, en hún er ekki svipur hjá sjón vegna ótæpilegrar efnistöku á sínum tíma.
Jeppamenn notuðu Reykjanesið um tíma fyrir utanvega akstur en núna eru það aðallega menn á miðjum aldri sem aka svokölluðum endúró hjólum, eða motokrossmenn sem þeytast upp um öll fjöll og spæna upp viðkvæma dali á Reykjanesinu. Slíkur akstur er með öllu bannaður í Reykjanesfólkvangi eins og annarsstaðar á landinu, en það gengur mjög illa að hafa hendur í hári þessara manna.
Það eru tvö beitarhólf innan fólkvangsins. Annað er orðið nokkuð rótgróið en hitt er nýlegt. Því miður gleymdist að vernda kirkjugarðinum í Krýsuvík og sauðfé var þar á beit síðasta sumar og stundum stóð kirkjan opin þannig að sauðféð leitaði þar skjóls. Annars gegnur sauðféð innan girðingar sem nær upp um alla hálsa þar sem varla er stingandi strá að finna.
Öll þessi sveitarfélög telja sig geta nýtt beitarréttindi sín áfram þótt landið hafi verið fólkvangur í rúmlega 30 ár og þessvegna eru stór og mikil beitarhólf innan fólkvangsins. Það hefur veruð baráttumál um áratugaskeið að Reykjanesið verði fjárlaust land, en sú barátta hefur ekki borið annan árangur en þann að nú er allt sauðféð meira og minna innan fólkvangsins. Hafnfirðingar gáfu aldrei eftir réttindin til að nýta orkuna í Krýsuvík og þessvegna er spurning hvað á eftir að gerast þar.
Það er fjöldi merkra náttúruminja í fólkvangnum, fallega mótaðar móbergsmyndanir, hraunstapar, hraunhellar og margháttað gróðurfar, sem á í vök að verjast. Landeyðing er gríðarleg í Reykjanesfólkvangi. Landgræðsla hefur verið stunduð þar um áratugaskeið en árangurinn hefur verið minni en efni stóðu til. Samt sem áður má víða sjá grösuga bala en mest ber á uppblásnum melum og móbergshálsum.
Það liggja nokkrar fornar þjóðleiðir um Reykjanesfólkvang. Hluti af Selvogsgötu, Undirhlíðarleið, Stórhöfðastígur, Hrauntungustígur, Ketilstígur, Drumbsdalaleið, Sveifluleið, Hettuvegur, Dalaleið, Vatnaleið og Suðurleiðin gamla sem vermenn austan úr Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum fylgdu á leið sinni í verið á þorranum og aftur heim að vori.
Nú eru helstu leiðirnar Krýsuvíkurvegurinn sem var lagður 1935-1945 og Ísólfsskálavegur sem er að stofni til frá því um aldamótin 1900, þó núverandi vegur sé um hálfrar aldar gamall. Svo er vegslóði sem liggur að Djúpavatni og áfram um Krókamýri og Vigdísarvelli að Latsfjalli, sem er eingöngu opinn á sumrin.
Þessa stundinar er verið að vinna við nýjan Suðurstrandarveg sem þó nokkrar deilur hafa staðið um. Sá vegur á að tengja saman byggðirnar í Suðurkjördæmi, þ.e. Suðurnesin og Suðurlandið.
---- Framtíðin
Fyrir nokkrum árum lagði Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur fram tillögu um að gera Reykjanesfólkvang að Eldfjallagarði og stækka hann í leiðinni til austurs. Hann vildi draga Þríhnúkasvæðið inn í fólkvanginn. Haustið 2005 kom óformlegur hópur fólks saman til að vinna málinu brautargengi sem endaði með því að Landvernd tók málið upp á aðalfundi sínum vorið 2006. Þar var samþykkt að halda áfram að vinna að hugmyndinni og koma henni á framfæri við almenning. Meðal þess sem rætt hefur verið um í sambandi við Eldfjallagarð á Reykjanesi er sú hugmynd að bora gat inn í miðjan Þríhnúkagíg, sem er einn stærsti eldgígur heims. Þar væri hægt að koma fyrir útsýnispalli og leyfa fólki að skynja hversu gríðarstór gígurinn er, og hversu smár maðurinn er í samanburði við undarverk náttúrunnar.
Það eru margar aðrar hugmyndir á lofti um það hvernig best væri að varðveita þetta mekra svæði, og nýta það á sama tíma án þess að spilla því um of.
Reykjanesfólkvangur hefur verið olnbogabarn sveitarfélaganna sem standa að honum í allt of langan tíma og full ástæða til að