Fara í efni

EN FINNA MENN SANNLEIKANN MEÐ RANNSÓKNAR-AÐFERÐUM HRUNVERJA?

Sæll Ögmundur
Mér finnst ekki gott að þú skulir vera að hætta á þingi en ég vil treysta því að þú sem formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis munir ekki láta deigan síga á lokametrunum heldur sinna starfi þínu af kostgæfni og sjá til þess að skipuð verði fagleg og óháð nefnd til að skrifa rannsóknarskýrslu um einkavæðingu bankanna, hina síðari. Vona að þú hafir lesið afbragðsgóðan pistil Marinós Njálssonar um málið og hafir þar margt til hliðsjónar, en í pistlinum staðfestir hann í megindráttum það sem í Vigdísarskýrslunni stendur skrifað. Margsinnis hefur þú sýnt það Ögmundur að þú ert maður til að sjá hið augljósa og akta samkv.mt því. Hið augljósa er að einkavæðingu bankanna, hina síðari sem og þá fyrri, varðar beinlínis þjóðarhag og virðingu Alþingis, að hið sanna megi koma fram, hversu dapurt sem það verður allsherjar-föður "Vinstri"grænna. Eða er hann svo alltumlykjandi að þú munir kikna á lokametrunum Ögmundur og afneita sannleikanum og hlusta á hanann gala þér?
Nóboddíinn

Sæll,
Samkvæmt núverandi áætlun stjórnar Alþingis á að slíta þingi á fimmtudag. Ef til vill er ekkert að marka það fremur en ýmislegt annað.
Ekki glemya því að vandinn við hrunið - á meðal margs annars - var hraðinn. Allt átti að klárast strax. Öll mál og allar athuganir, sem fyrir bragðið urðu í skötulíki. Þetta eru vinnubrögð sem Stjórnskipunar- og eftirlitsnenfnd Alþingis hlýtur að hafna, ekki bara í orði, heldur verki. Hvað mig áhrærir þá læt ég engin áfrýjunarorð hnika mér hvað þennan ásetning um vönduð vinnubrögð varðar.
Hvað mína afstöðu snertir þá tel ég að rannsaka eigi allt sem rannsóknar er krafist um af mikulm þunga í samfélaginu, að ekki sé minnst á stórmál sem snerta líf og kjör fólks. Annað er beinlínis skaðlegt yrir samfélagið. Staðhæfingar og dylgjur, ef því er að skipta, eru eyðileggjandi fyrir lýðræðið.
Síðan þarf að vanda sig við orðfærið. Þannig er talað um einkavæðingu bankanna, hina síðari. Þessari skilgreiningu er fleytt inn í umræðuna af hálfu þeirra sem stóðu að því að markaðsvæða bankakakerfið um aldamótin með þeim afleiðingum sem við þekkjum. Bankarnir voru afhentir aðilum samkvæmt pólitískum línum. Framsóknarflokkurinn gekk þar hart fram og af óbilgirni. Sjálfstæðisflokkurinn passaði upp á sinn hlut. Um þetta er ekki deilt lengur eftir ítarlegar rannsóknir. Þarna var skýr ásetningur að baki, þar sem verið var að hygla tilteknum öflum á pólitískum forsendum eins og við þekkjum.
Hvort stjórnvöld brugðust við vandanum sem skyldi er sjálfsagt að rannsaka í kjölinn en áður en menn fullyrða að ásetningur hafi verið að baki um að mismuna fólki og fyrirtækjum, verður að draga andann og síðan vanda til verka.
Í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom málið upp og gekkst ég sem formaður nefndarinnar fyrir því að fá ÖLL gögn sem beðið var um. ÖLL.
Síðan bregður svo við að úrvinnslan er skyndilega komin á borð Fjárlaganenfdar eins og við þekkjum. Nú standa mál svo að þingi er að ljúka en ný nefnd tekur við þegar þing kemur saman eftir örfáar vikur. 
Það sama gildir um þetta mál eins og önnur mál, sem menn telja vera óútkljáð, að þau hljóta að bíða. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur einfaldlega ekki lagalega heimild til að leggja til viðamikla rannsókn án þess að uppfylla áður tiltekin  skilyrði svo sem að leggja fram greinargerð og óska umsagnar stjórnar þingsins um hana.
Það er ENGUM greiði gerður með fljótfærnislegum handarbakavinnubrögðum. Um það höfum við dæmin.
Ögmundur