ENDURHÆFUM MANNESKJURNAR, EKKI BARA NÁTTÚRUNA !
Verkefnalistinn okkar: Margar góðar áætlanir eru á endurhæfingu náttúru landsins svo og velferðarmála. En ég hefi ekki komið auga á tillögur til úrbóta vegna fíkniefna og meðferðarmála. Meðferðarstöð Vogs undir skeleggri stjórn Þórarins Tyrfingssonar hefur kvartað sáran yfir að núverandi ríkisstjórn sýni of lítinn áhuga til styrkingar í þeim málum. Skora á þig Ögmundur að draga vagninn í þessum málum. Ég sem sendi þessar línur er óvirkur alkahólisti og segi hiklaust, að fagleg meðferð hefur bjargað lífi góðs sósíalista eins og svo margra annara. Spurningin er: Hvar standa Vinstri grænir í þessum málaflokki? Með vinsemd og baráttukveðju.
Þ.Sig.
Þakka þér kærlega bréfið. Ég tek undir með þér að það myndi skjóta skökku við að láta sitja við það eitt að vilja "endurhæfa" landið en láta mannfólkið síðan sitja á hakanum. VG er mjög meðvitað um mikilvægi þess að rekin sé öflug meðferðarstarfsemi vegna fíkniefna- og áfengissýki. Við höfum sýnt þessu málefni mikinn áhuga og viljum beita okkur fyrir átaki á þessu sviði. Ég er mjög sammála þeim áherslum sem Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG hefur sett fram varðandi úrræði og áherslur og leyfi mér að vísa í grein sem hann nýlega birti HÉR á síðunni.
Kv.
Ögmundur