Fara í efni

ENDURHEIMTUM ÞJÓÐAREIGINIR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 09.01.09.
Það er smám saman að renna upp fyrir þjóðinni hvað hefur hent hana á undanförnum árum. Allar eignir hennar hafa annað hvort verið teknar af henni með einkavæðingu eða þær hafa verið veðsettar að fullu og hún svipt þeim með þeim hætti.  Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum hafa á undanförnum misserum hreykt sér af þeim „árangri" sem náðst hafi. Fyrst hafi kvótinn verið tekinn af þjóðinni, hann gerður að einkaeign sem mætti veðsetja og braska með, síðan hafi fjármálastofnanir farið sömu leið og í kjölfarið aðrar almannaeignir og að lokum hafi lífeyriskerfi landsmanna verið sogað inn í braskið.  „Nú væri gaman að gefa í"  og halda með enn meiri hraða og af enn meiri krafti inn í einkavæðingarheiminn, sagði Hannes Hólmsteinn með glampa í auga í þættinum Ísland í dag á Stöð 2, fyrir rúmu ári. Því miður varð honum að ósk sinni og við vitum hvernig fór. Ég held að það hafi verið rétt greining hjá Hannesi að feigðarflanið hófst með einkavæðingu kvótakerfsins. En einmitt þar á nú að byrja að vinda ofan af öfugþróuninni.  Ná þarf að tryggja sjávarauðlindina aftur í þjóðareign. Sama gildir um vatnið, heitt og kalt, rafmagnið og alla grunnþjónustu samfélagsins sem ríkisstjórnir undangenginna tveggja áratuga hafa verið að þoka út á markaðstorgið.

Markaður á að ríkja þar sem hann gerir gagn. Ekki þar sem nú hefur sannast að hann gerir ógagn.  Brýnasta verkefni þjóðarinnar nú er að ná auðlindunum tilbaka. Ef við missum þær úr hendi til auðmanna innan lands eða utan þá eigum við okkur ekki viðreisnar von. Aldrei. Látum það ekki henda.
Ögmundur Jónasson