MANNRÉTTINDI, TYRKLAND OG FJÖLMIÐLUN
Það er ekki auðvelt að koma á framfæri við almenning boði á opna fundi eins og þann sem boðað var til í vikunni sem leið um mannréttindamál í Tyrklandi. Til hans boðaði sendinefnd sem nýkomin var frá Tyrklandi að afla upplýsinga um stöðu mannnréttinda þar í landi; vel að merkja einu aðildarríkja Evrópuráðsins. Áherslan var á pólitíska fanga og þar með ofsóknir á hendur Kúrdum en oftar en ekki er pólitíski fanginn Kúrdi. Fundur um mannréttindi í Tyrklandi er þess vegna alltaf fundur um réttleysi Kúrda og leiðir til þess að ráða bót á því.
Fréttatilkyning var send á alla fjölmiðla, innlenda sem erlenda, sem voru ófáir á Íslandi í vikunni. Í henni var þess látið getið að um væri að ræða fréttamannafund sem jafnframt væri opinn almenningi.
Bylgjan brást þegar jákvætt við og gerði fyrirhuguðum fundi góð skil í morgunútvarpi. Það gerði líka Samstöðin og Morgunblaðið þar sem frétt um fyrirhugaðan fund var slegið upp. Morgunblaðið birti síðan ítarlegt viðtal við einn frummælanda á fundinum, Denis O´Hearn prófessor við háskólann í El Paso í Texas sem serhæft hefur sig I fsngelsismálum, en hann hefur gert samanburðarrannsóknir á einangrunarfangelsum í Bandaríkjunum, Írlandi og Tyrklandi.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/05/17/bregdast_thurfi_vid_mannrettindabrotum_i_tyrklandi/
Samstöðin sagði ítarlega frá fundinum og tók hann auk þess upp á band með það fyrir augum að setja hann í loftið á youtube.
https://samstodin.is/2023/05/krefjast-thess-ad-evropurad-se-samkvaemt-sjalfu-ser-i-malefnum-kurda/
youtube þáttinn má nálgast hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/samstodin-birtir-myndband-af-fundi-um-mannrettindi-i-tyrklandi
Ekki má gleyma þvi að fundinum var streymt til Evrópu og Kúrdistan og er mér sagt að áhorf þaðan hafi verið mikið. Þannig að upplýsingarnar sem við höfðum fram að færa fóru víða þótt enn víðar hefðu þær mátt fara.
Án velvilja og skilnings fjölmiðla fær enginn neitt að vita. Starfsmönnum fjölmiðlanna hefur stundum réttilega verið lýst sem hliðvörðum sem ráði því hvað fái komist inn í almenna þjóðfélagsumræðu. Á slíkum hliðvörðum hvílir mikil ábyrgð.
Áhugaleysi evrópskra meginstraums fjölmiðla var staðfest með þessum fundi og er greinilegt að Ríkisútvarpið íslenska vill halda sig í þeim hópi því þar var þessum fundi svarað með þögninni. Málfrelsisfélagið vakti hins vegar athygli á fundinum og málefninu.
Ég vil hins vegar þakka öllum þeim sem sýndu málefninu áhuga og þar með stuðning við það að fólk fái rödd sem svipt hefur verið málfrelsi sínu.