Fara í efni

ENN UM EIGNARRÉTT OG MANNRÉTTINDI

Sæll aftur Ögmundur.
Þakka þér fyrir svar þitt við spurningu minni, hver væru uppáhaldsmannréttindi að þinni meiningu.
Ég spurði vegna þess að mér finnst varasamt að gera upp á milli hinna ýmsu mannréttinda. Í svari þínu bætir þú um betur og setur orðið mannréttindi innan gæsalappa þegar þú nefnir eignarréttindi.
Mannréttindin eru ein heild, sem verða að styðja hvert annað.  Ef traðkað er á einu falla önnnur hvert á fætur öðru.
Ein eru þó þau mannréttindi, sem ég tel að hafi verið vanmetin, en það er trúfrelsi. Fljótt á litið telja menn að jafnrétti sé á milli trúarbragða og menn taki þá trú, sem þeir velja.
Það er auðvitað rétt svo langt sem það nær.  En engu minni þýðingu hefur að maður þarf engu að trúa og er óbundinn af opinberum heilaþvotti.  Lítið færi fyrir skoðana- og tjáningafrelsi ef stjórnvöld réðu hverju maður trúir, hugsar og biður.
Eignarréttindi eru mjög vanmetin. Menn rugla þeim saman við eignir, og þau séu aðallega fyrir hina ríku.  Eignarlaus maður hefur jafn mikil eignarréttindi og ríkur maður.  Mállaus maður hefur jafn mikið skoðana- og tjáningarfrelsi og ræðuskörungurinn.
Málefnaleg dreifing eigna er forsenda lýðræðis og eðlilegra takmarka opinbers valds.  Eignir mannkynsins vaxa hröðum skrefum, en misratt. Góðar umgengnisreglur eru nauðsynlegar varðandi  eignarréttinn.
Feimni vinstri manna og hjárænuháttur gagnvart eignarrétti, sem á rætur í úreltum trúarkenningum, stendur vinstri mönnum fyrir þrifum.
Milljónir þræla í Bandaríkjunum voru ekki ríkisborgarar í því landi, heldur eign hvítra manna.  Þeir höfðu hvorki eignarréttindi né eignir.  Það litla, sem tilheyrði þeim, föt t.d. var eign húsbænda þeirra.
Þegar Abraham Lincoln leysti þessa menn úr ánauð 1. janúar 1863, veitti hann þeim ríkisborgararétt með þeim mannréttindum, sem því fylgdi.  Hann breytti þeim úr eign í menn með eignarréttindi, eigendur.  Nú áttu þeir fötin, sem þeir stóðu í.  (Öðru máli gegnir að þessi breyting tók 90 ár í viðbót).
Menn geta aldrei verið eign annars, því þeir sjálfir hafa eignarréttindi hver fyrir sig. Það er þversögn að maður eigandi geti sjálfur verið eign annars.  Slíkt á aðeins við um lögpersónur.
Menn geta ráðstafað eignum sínum, en ekki eignarréttindum sínum.  Þau eru meðfædd og ófrávíkjanleg.
Jóhann J. Ólafsson.

Þakka þér þitt ágæta bréf Jóhann. Mér þykir umræða um grunngildi vera mikilvæg og áhugaverð. Ég er þér sammála að ef við skilgreinum einhver réttindi á annað borð sem mannréttindi þá getur ekki verið um neina hálfvelgju að ræða eins og þú tekur ágæt dæmi um varðandi skoðana- og tjáningarfrelsið. Einmitt þess vegna hika ég við að flokka eignarréttinn til mannréttinda. Þótt ég vilji virða þennan rétt þegar á heildina er litið þá finnst mér engu að síður geta verið um að ræða slíkar eignir og þá væntanlega rétt til þeirra, sem eru svo út úr öllu siðferðilegu landakorti að ég ætti erfitt með að flokka slíkt til mannréttinda. Ég á með öðrum orðum erfitt með að aðgreina eignarréttinn sem slíkan og eignina sem hann tekur til. Að vissu marki setur þú eignir í siðferðilegt/praktískt samhengi þegar þú talar um mikilvægi þess að eignir séu dreifðar og að það sé forsenda lýðræðis.
Kveðja,
Ögmundur

Sjá fyrri skrif HÉR