ENN UM SKATTSKRÁR
Sæll aftur.
Takk fyrir birtinguna og svarið. Eftir því sem ég best veit er eina fjölmiðlaumfjöllunin um afstöðu SUS tengd því að þú hafir fengið þessa spurningu. Hvað varðar ofurlaun stjórnenda stórra fyrirtækja þá er það náttúrlega svo að þær upplýsingar eru birtar í ársreikningum viðkomandi fyrirtækja. Sjálfum finnst mér ekkert að því að slíkar uppýsingar séu gerðar opinberar. Það er eðlilegt að hluthafar hafi aðgang að þeim upplýsingum. Þetta dugir þó ekki sem afsökun fyrir því að bera á torg þessar persónuupplýsingar um alla þjóðina.
Sú aðgerð að birta opinberlega skattgreiðslur allra Íslendinga getur aðeins haft tvær mögulegar og málefnalegar réttlætingar, og þeim er ég báðum ósammála.
Í fyrsta lagi mætti færa rök fyrir því að opinber birting sé þáttur í skattaeftirliti. Þessu sjónarmiði er ég ósmammála þar sem mér finnst ógeðfellt að ríkisvaldið feli borgurunum að njósna um hver annan.
Í öðru lagi hefur verið nefnt að þetta sé nauðsynlegt til að hægt sé að draga ályktanir, t.d. um misskiptingu eða ójöfnuð milli launa kynjanna. Það má vera að réttmætt sé að afla þessara upplýsinga en ljóst er að það er hægt að gera á ópersónugreinanlegan hátt. Ennfremur er augljóst, öllum þeim sem þekkja til aðferðarfræði í rannsóknum, að birtingar á listum í blöðum fullnægja engum skilyrðum um óvilhalla og marktæka rannsókn.
Af málflutningi þínum að dæma hefur þú hvorugt þessara markmiða í huga. Þú telur að með þessari birtingu sé skömm ofurlaunamannanna opinberuð. Þú gengur meira að segja svo langt að kalla þessa menn þjófa. Það finnst mér reyndar ekki sæma þér. Því er þó til að svara að laun þessara manna birtast hvort sem er í ársreikningum þeirra fyrirtækja sem þeir starfa fyrir.
Annars þakka ég þér svarið, birtinguna og skoðanaskiptin.
Bestu kveðjur,
Þórlindur
Sæll Þórlindur
Þú mælir með ópersónugreinanlegum upplýsingum um kjör og skiptingu gæðana. Síðan geti menn stúderað ársskýrslurnar. Þú kemur ekki auga á neinar málefnalegar ástæður fyrir afstöðu minni, telur hana byggja á illkvitni og löngun til að opinbera skömm ofurlaunafólks. Heldur þú að harðasta sjálftökufólkið kunni að skammast sín? Ég leyfi mér að efast um það. Hins vegar vona ég að þjóðfélagið fari að átta sig á í hvert óefni stefnir hvað varðar misskiptingu á Íslandi. Hún er okkur öllum hættuleg því ranglátt þjóðfélag verður getulítið þjóðfélag.
Sannast sagna hef ég átt samræður við marga um þessi efni nú síðustu, daga, þar á meðal samflokksmenn þína í Sjálfstæðisflokknum. Ég minnist sértsklega samræðu við einn samflokksmann þinn sem sagði mér að hann hefði ætíð verið andvígur birtingu skattskrárinnar - þar til nú. Hann var sammála um að skattskráin opnaði okkur sýn inn í kjaraumhverfi þjóðarinnar, og að umræðan sem þetta skapaði væri til góðs. Eins og málum væri komið á Íslandi væri mál málanna að taka á misskiptingunni en þá yrðum við líka að horfast í augu við hana, ekki sem dauða kennitölu heldur veruleikann af holdi og blóði.
Kv. Ögmundur