Fara í efni

ER AÐ TAKA SIG UPP GAMALT MEIN?

Ríkisstjórnin 2007
Ríkisstjórnin 2007

Kristján Þór Júlíusson ræddi m.a. skipulag heilbrigðisþjónustunnar í þætti  Sigurjóns Egilssonar, Sprengisandi, á Bylgjunni sl. sunnudag. Hann sagði þar að ýmislegt annað væri í boði „heldur en það að ríkissjóðurinn, ráðuneytið, standi í rekstri. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum frekar að horfa til þess að ráðuneytið sé stefnumótandi á grunni löggjafar sem Alþingi hefur sett og síðan eru aðrir færari um að annast rekstur en ráðuneytin sjálf."

Gamalkunn lumma


Þetta er skýrt og skorinort. Það sem við mörg héldum að væri herhvöt nýs heilbrigðisráðherra um að standa vörð um almannarekna almannaþjónustu er að snúast upp í gamalkunna lofgjörð um einkarekstrur.
Í mínum huga talaði heilbrigðisráðherra skýrt. Það gerði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar að sönnu líka þegar hann tók upp þráðinn frá Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra jafnframt því sem hann bar blak af honum fyrir markaðsvæðingartalið: „Ég heyrði hann einungis tala fyrir fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu en ekki víðtækari einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Gott væri hins vegar að heyra frá honum skýrari línur. Ólík rekstrarform geta út af fyrir sig þjónað góðum árangri. Einkaaðilar veita nú þegar mikla velferðarþjónustu og gera það með ágætum."(http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/07/14/heilbrigdisradherra-adrir-faerari-um-ad-reka-heilbrigdisthjonustuna )

Mér sýnist að nóg verði að gera á þingi fyrir þau okkar sem eru sammála yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar (samkvæmt könnunum ítrekað) að vilja ekki sjá rándýrar einkalausnir markaðsvæddrar heilbrigðisþjónustu. Ég hef margoft sagt að sú blanda sem við höfum haft á milli opinbers reksturs og einkareksturs þoli ekki meiri einkarekstur. Það sé of kostnaðarsamt og ávísun á misrétti þegar til lengri tíma er horft.

Gamall rómans


Það þarf ekki að koma neinum á óvart að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking kankist á um heilbrigðismálin. Framsóknarflokkurinn hrökklaðist aðframkominn úr ríkisstjórn vorið 2007 úrvinda eftir stífan frjálshyggjudansinn við Sjálfstæðisflokkinn í tólf ár  - búinn að svíkja nánast hverja einustu samvinnuhugjón nema eina - Framsókn vildi ekki markaðsvæða heilbrigðiskerfið - alla vega ekki ganga eins langt og Sjálfstæðisflokkurinn.
En viti menn, þá kom til sögunnar Samfylkingin. Í aðdraganda stjórnarmyndunar vorið 2007, hinn 18. maí, sagði í frétt á forsíðu Morgunblaðsins: „"Samfylkingarfólk gaf sjálfstæðismönnum sterkt til kynna að hægt yrði í samstarfi flokkanna að koma hreyfingu á mál, sem yrðu í kyrrstöðu í óbreyttu stjórnarsamstarfi með Framsókn. Þar voru sérstaklega nefnd heilbrigðismál, landbúnaðarmál, menntamál og velferðarmál."
Nokkrum dögum síðar hafði Samfylkingin kokgleypt heilbrigðisstefnu Sjálfstæðisflokksins: https://www.ogmundur.is/is/greinar/samfylkingin-kokgleypti-heilbrigdisstefnu-sjalfstaedisflokksins

Góðar fréttir fyrir Samfylkinguna: Meinið þarf ekki að vera illkynja

Þess vegna er nú spurt hvort gamalt mein sé að taka sig upp á ný? Ég þykist hins vegar vita að kjósendur Samfylkingarinnar eru upp til hópa félagslega sinnaðir og þannig hefur nýr formaður einnig talað um nokkra hríð. Mín skilaboð til míns ágæta félaga Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar eru í senn huggunaroð og hvatning: Einkavæðingaráráttan hjá Samfylkingunni þarf ekki að vera illkynja mein - þótt það geti hæglega orðið það. Því má halda í skefjum, jafnvel nema það brott. Og læknisráðið: Staðreyndir reynslunnar upp á borðið og síðan rökræðu! Tökum þá rökræðu af krafti innan stjórnmálaflokkanna og í samfélaginu. Að henni lokinni mun allt félagslega sinnað fólk eiga samleið, hvar í flokki sem það stendur. Um það er ég sannfærður.