ER ALÞINGI AÐ VERÐA ÓNÆMT FYRIR ÞJÓÐINNI?
Í gærkvöldi hlustaði ég á umræðu á Alþingi um orkumálin. Ég hætti að hlusta um miðnættið þegar forseti hafði lýst því yfir að þingfundi yrði senn slitið – aðeins örfáar ræður enn. Við þetta var ekki staðið og umræðan keyrð áfram alla nóttina. Varð mér hugsað til fyrri tíma.
Það geri ég líka þegar ég heyri umræðuna kallaða málþóf. En hvað skyldu menn vilja kalla það þegar stjórnendur þingsins standa ekki við gefin fyrirheit?
Sitthvað sérkennilegt var sagt við þessa umærðu. Þar á meðal voru ræðuhöld um harðstjórn, nasisma og fasima. Ég saknaði þess að þetta væri ekki botnað og kennitala sett á þá sem ummælin voru ætluð en ég gat ekki skilið betur en það væru andstæðingar orkupakkans sem er til umfjöllunar. Ef svo er þá þykir mér langt seilst.
Fullyrðingar voru miklar um að “allir sérfræðingar” segðu þetta eða hitt án þess að fyrir slíkum alhæfingum væri fótur.
En aðeins aftur að málþófi. Mér er málið nefnilega skylt því iðulega var ég sakaður um málþóf í minni þingmannstíð. Hin svokölluðu málþófsmál sem ég tók þátt í, vissulega af krafti, voru reyndar ekki mörg. Það var náttúrlega Kárahnjúkavirkjun, hlutafélagavæðing bankanna (þegar við sum vildum ekki trúa því að aðeins stæði formbreyting til, sala kæmi ekki til greina), nákvæmlega sama var um Póst og síma sem alls ekki yrði seldur; síðan var það hlutafélagsvæðing Ríkisúrvarpsins, styrking einkaeignarréttar á vatni og auðlindum í jörðu, skerðing á félagslega húsnæðiskerfinu og skert réttindi launafólks, lagabreytingar sem lutu að almenna vinnumarkaðnum og hinum opinbera og fólu í sér skerðingu, einkavæðing raforkueftirlitsins, gagnagrunnudmálið, áfengi í matvörubúðir og nokkur fleiri mál mætti nefna. Flest af þessu var í óþökk þjóðarinnar, en, eins og nú, var til staðar stjórnarmeirihluti staðráðinn í því að knýja málin í gegn og má spyrja eins og Valur Njáll Magnússon spurði á vef Vísis í morgun: “Er ekki minni hluti þingmanna að tala fyrir meirihluta þjóðarinnar, mér finnst hæpið að kalla það málþóf.”
Þegar litið er til baka þá voru málþófsmálin ekki mörg en með málþófi sem menn vilja nefna svo (að ósekju þykir mér því skuldinni er þá alfarið skellt á þann sem vill forða slysum en ekki hinn sem er valdur að þeim) þá er umræða um mál lengd um einhverja daga, í sumum tilvikum er málum skotið á frest. Það gerðist til dæmis með vatnalögin og tókst fyrir vikið að sníða nokkra alverstu vankantana af þeim lögum þótt meira hefði þurft í því efni, Rúv frumvarpið lagaðist ögn, lífeyrisréttindum var bjargað, einkavæðing vatnsveitnanna varð að öðru og skárra og fleira mætti nefna um lagfæringu á lagafrumvörpum – vegna "málþófs".
Með því að lengja umæðu örlítið nær þingið að kallast á við þjóðina og þjóðin á við þingið. Vandinn er sá hins vegar að mínu viti að þingið virðist á góðri leið með að verða ónæmt fyrir þjóðinni. Það er ekki góðs viti.