Er Blair Framsóknarmaður?
Halldór Ásgrímsson var á meðal gesta í Silfri Egils á Skjá einum í dag. Fram kom að honum hafi þótt ákvörðun um að styðja Bandaríkjamenn og Breta til árása á Írak erfið. En stundum þyrfti að taka erfiðar ákvarðanir sagði utanríkisráðherra. Mér er spurn: væri ekki nær að spyrja hvers vegna þessar ákvarðanir voru svona erfiðar? Gæti það verið vegna þess að þær eru siðlausar og standast ekki gagnrýna skoðun. Um allan heim standa menn orðlausir þegar leiðtogar Bandaríkjanna og Bretlands koma fram með ósannindi um Íraksmálið. Það má síðan bóka að þeir félagar, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, hafa allt eftir þeim. Þetta gerðist í fyrrnefndum sjónvarpsþætti. Á fimmtudag sagði Tony Blair á fréttamannafundi vestanhafs að Saddam Hussein Íraksforseti væri valdur að dauða fjögur hundruð þúsunda barna á undanförnum fimm árum. Þau hefðu dáið úr næringarskorti og öðru honum tengdu. Staðreyndin er sú að tala látinna barna í Írak af völdum viðskiptabannsins sem hvílt hefur á landinu í rúman áratug að undirlagi Bandaríkjanna er sennilega miklu hærri. Í fyrstu var landið svelt af öllum aðföngum. Síðan var sett upp svokölluð "matur fyrir olíu" áætlun. Það fólst í því að heimila Írökum að selja olíu til kaupa á lágmarks matvælum og aðföngum fyrir sjúkrahús. Svo naumt var þó skammtað að þeir sem af hálfu Sameinuðu þjóðanna fengu það verkefni að skipuleggja aðstoðina, Denis Halliday (sem verið hefur aðstoðarframkvæmdastjóri SÞ) og Hans von Sponeck, sögðu af sér í mótmælaskyni við skilmála viðskiptabannsins. Denis Halliday sagði að afleiðingum viðskiptabannsins "mætti jafna við þjóðarmorð" ("nothing less than genocide"). Hans von Sponeck viðhafði svipuð orð. Í grein, sem breski blaðamaðurinn John Pilger ( www.johnpilger.com ) sendi frá sér eftir yfirlýsingu Blairs, er staðhæft að í júlí síðastliðnum hafi bandarísk yfirvöld stöðvað hjálparsendingu (sem SÞ hafði samþykkt og greitt hafði verið fyrir með íröskum olíupeningum) til Íraks. Pilger segir að sú ákvörðun hafi verið með samþykki Breta. Þegar síðan Tony Blair forsætisráðherra Bretlands nú þvær hendur sínar frammi fyrir heiminum verður þeim orðvant sem til þekkja. Hitt kemur engum lengur á óvart að Halldór Ásgrímsson komi boðskap Blairs á framfæri í íslenskri þýðingu. Það er dapurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórn Íslands skuli ekki í nokkru máli geta sýnt reisn og haft uppi sjálfstæðan málflutning. Halldór Ásgrímsson getur hins vegar átt það við sjálfan sig að skilgreina pólitík breska forsætisráherrans. Öfgafullur málflutningur Blairs þykir Halldóri vera dæmigerður fyrir hófsama miðjustefnu. Skilja mátti á Halldóri að Blair væri í rauninni eins konar Framsóknarmaður. Sennilega er nokkuð til í þessu hjá Halldóri.