ER BOÐLEGT AÐ SKATTGREIÐENDUR REKI EINKABÍLA FYRIR FORSTJÓRA?
10.08.2008
Það er ekki út í loftið að ég segi að nú sé mál málanna að jafna kjörin í landinu. Á undanförnum árum hefur stefnt hraðbyri í misréttisátt á Íslandi. Það sem verra er að þeir sem verið hafa í aðstöðu til að skara eld að eigin köku hafa komist upp með það nánast óáreittir. Það er ekki fyrr en í seinni tíð að gagnrýnin á sjálftökuliðið gerist hávær. Ekki að furða að fólki blöskri þegar marg-milljón-krónu-mennirnir byrja að segja starfsfólki sem undir þá er sett, úpp starfi; vísa því út á guð og gaddinn.
Það er meira en að segja það að missa atvinnuna. Áður en fólki er sagt upp störfum ber forstjórum og öðrum stjórnendum siðferðileg skylda til að líta í eigin barm. Hver eru þeirra eigin launa- og starfskjör? Er hægt að komast hjá uppsögnum með því selja glæsi-jeppana og jafnvel lækka stjórnendur í launum og færa kjör þeirra til samræmis við þá sem minna hafa hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki. þegar allt kemur til alls snýst málið um það hvernig verðmætum sem eru fyrir hendi innan stofnana og fyrirtækja er skipt.
Ég vakti máls á mikilvægi kjarajöfnunar hér á síðunni þegar nokkrum starfmönnum RÚV ehf var sagt upp störfum nýlega. Ég lagði til að glæsibíllinn yrði seldur undan útvarpsstjóranum, Páli Magnússyni áður en byrjað væri að segja upp fólki. Í mínum huga er þetta spurning um peninga og fordæmi, fjárhagsleg og táknræn aðgerð. DV gerði úr þessu smáfrétt. Í framhaldinu var leitað til útvarpsstjóra. Hann brást hinn versti við og sagði að í sínum huga væri þessi málflutningur minn „svo mikið lýðskrum og sýndarmennska" að varla væri „boðlegt".
Þetta hefur orðið mér umhugsunarefni. Ég geri mér grein fyrir neikvæðri merkingu hugtaksins lýðskrum. Það þýðir að eitthvað er sagt sem talið er að falli í kramið hjá fjöldanum. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að Páll telur að sjónarmið mín séu í samræmi við viðhorfin almennt í þjóðfélaginu. Látum liggja á milli hluta að hann haldi því fram að ég segi þetta einvörðungu til að slá sjálfan mig til riddara. Eftri stendur að hann trúir því að almeningi líki illa þegar forstjórar nota aðstöðu sína til að kaupa undir sig glæsikerrur og hækka eigin laun en hirði minna um kjör þeirra sem lakast eru settir, að ekki sé minnst á það að þeir reki fólk úr vinnu.
Útvarpsstjórann á RÚV ehf nefndi ég nánast af handahófi í þessari umræðu. Þó er eitt sem hann þarf að hugleiða ýmsum öðrum forstjórum fremur. RÚV ehf er fjármagnað fyrir almannafé - afnotagjöldum. Ef ég man rétt á að breyta afnotagjöldum í lögþvingaðan nefskatt áður en langt um líður.
Skattgreiðendum er gjarnt að hugsa um hvernig peningum þeirra er ráðstafað. Mun þeim þykja „boðlegt" að nefskatturinn fari í lúxuskerru undir útvarpsstjórann?