Fara í efni

ER FÁMENNIÐ DÝRMÆTASTA AUÐLIND ÍSLANDS?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29/30.04.17.
Eflaust er einstaklingsbundið hvað það er við Ísland sem við leggjum mest uppúr. Flest höldum við tryggð við land íss og elda vegna þess að hér er fjölskylda okkar og það fólk sem okkur þykir vænst um og viljum vera nálægt. Þá er íslensk menning og menningararfleifð gefandi. Það er þetta tvennt sem við köllum rætur okkar. Síðan er það hreinleikinn. Andrúmsloftið er hreinna en víðast gerist og drykkjarvatn nánast hvergi betra. Þá er matvara almennt heilnæmari á Íslandi en annars staðar. Og ekki má gleyma náttúrufegurðinni. Ég efast um að mörg lönd geti státað af eins mörgum mögnuðum náttúruundrum á hundrað þúsund ferkílómetra svæði, Herðubreið og Dynjandi, Kolugljúfur, Skjálfandi, Hvassahraun, Hvannadalshnjúkur...   

Ég veit að það færi fyrir brjóstið á einhverjum ef áfram yrði haldið að tíunda ágæti okkar lands; að slíkt væri þjóðremba af verstu sort.  Ég myndi þvert á móti stilla slíku upp sem andstæðu hroka og rembings og kalla þetta þakklæti fyrir það sem okkur er falið.

En gagnvart hinum hneykslunargjörnu og öllum þeim sem vilja búa í stöðluðum heimi helst frávikalausum - þar sem allt hefur verið fært alla leið niður að lægsta samnefnara - ætla ég að ganga enn lengra í meintri þjóðrembu og afturhaldssemi og ræða fámennið. Ekki til að tala um það sem veikleika eins og gjarnan er ætlast til að þeir geri sem vilji teljast til frjálslyndra nútímamanna, heldur sem styrkleika.

Þegar allt kemur til alls þá grunar mig að flest deilum við þeirri reynslu að finnast það vera góð tilfinning að vera til fjalla, fjarri mannabyggðum, njóta kyrrðar öræfanna - njóta fámennisins.  Og getur verið að við séum ekki ein um þessa tilfinningu; að hún sé hreinlega sammannleg? Og gæti nú verið að fleiri en við sækjumst eftir hreinu ómenguðu drykkjarvatni og heilnæmri matvöru, kjöti sem ekki er sneisafullt af skaðlegum sýklum eða þá sýklalyfjum?

Einu sinni gekk ég með New York búa að Búrfellsgjá í Heiðmörk. Hann átti erfitt með að fóta sig í þýfðu landinu enda hafði hann aldrei komið út af malbikinu á Manhattan. Honum fannst þetta vera ævintýri lífs síns og þá ekki síður að aka yfir óbrúaða ársprænu á hálendinu og um malarvegi sem bugðuðust með landinu.

Já, en þarf ekki margmenni til að njóta velsældar? Því er til að svara að við erum ekki fá þegar allt kemur til alls. Og með samvinnu hefur okkur tekist að lyfta grettistaki á ýmsum sviðum. Samvinnufélagi kúabændanna, MS, tókst þannig að færa til landsins þróuðustu vinnslutæki fyrir mjólkurarfurðir sem finnast í heiminum. Og með samvinnu tókst okkur að koma á fót öflugu velferðarkerfi og þar með heilbrigðiskerfi sem á sínum tíma fékk þá einkunn hjá Efnahags- og framfarastofnuninni,  að það nýtti betur hverja krónu en heilbrigðiskerfi nokkurs staðar í heiminum. Þessi kerfi eru vissulega brothætt, sérstaklega þegar stjórnvöldin sjálf reyna að mola úr þeim. Það segir sig sjálft.

En getur verið að eftir nokkur ár, ef til vill fyrr en nokkurn grunar, verði helsta aðdráttarafl Íslands salmonellulaus egg og heilnæm kjötvara á borðum, lífrænt ræktað kál, línudreginn fiskur úr sjó, land laust við fjögurra akreina vegi og alla upphækkaða, svæði laus við hagkvæmnisútreiknaða vegalagningu sem þyrmir ekki viðkvæmum leirum, einhverjar óbrúaðar ár og mannfá svæði, sem þó eru ekki mannfá vegna þess að erlendir auðkýfingar haldi þeim út af fyrir sig í krafti eignarhalds sem aldrei átti að verða.

Allt sem við þurfum er að farið verði betur með verðmætin í landinu, að við látum ekki mjúkmála milljarðamæringa stela af okkur - slíka menn þarf ekki að flytja  inn - þegar eru of margir til staðar.

Það tekur ekki langan tíma að eyðileggja Ísland. En ef við höldum vel á málum mun mannfæð ekki koma að sök - þvert á móti verða okkar styrkur: jafnvel, dýrmætasta auðlind Íslands!