Er fyrirheitna landið fundið í einkavæddum ríkisbönkum?
Birtist í Fréttablaðinu 26.04.2003
Aðeins einn flokkur á Alþingi var fylgjandi því að þjóðin starfrækti ríkisbanka. Sá flokkur heitir Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þetta vildum við gera til að stuðla að festu og öryggi á fjármálamarkaði auk þess sem okkur var það ekki kappsmál nema síður sé að losa ríkið við banka, sem aldrei höfðu verið ríkissjóði nokkur baggi, þvert á móti skilað eigendum sínum ómældum arði. Þar á ofan höfðu þeir verið landsbyggðinni mikil lyftistöng í áranna rás. Allir aðrir flokkar en VG töluðu fyrir því að með markaðsvæðingu ríkisbankanna hæfust nýir tímar. Samfylkingin studdi Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn og lagði meira að segja lykkju á leið sína til að lofa og prísa þessa flokka fyrir að selja frá okkur gullkýrnar. Við minntum hins vegar á að alltaf þegar bankakerfi einstakra ríkja lenti í hremmingum væri það hlutverk hins opinbera að koma til hjálpar en í því sambandi má minna á bankahrunið í Kanada, Noregi og Svíþjóð. Í öllum tilvikum var pumpað inn milljörðum af opinberu skattfé. Í þessum löndum spurðu menn sig eftir á hvort sá sem bæri ábyrgðina þegar til kastanna kæmi ætti ekki einnig að hafa einhver áhrif. Það sem gerir Ísland sérstakt er þó smæð efnahagskerfisins. Sú hætta er mjög raunveruleg að í okkar smáa hagkerfi færist á sömu fáu hendurnar gríðarleg völd í atvinnu- og fjármálalífinu. Þetta er nú að gerast.
Siðferðið í fyrirheitna landinu
Þegar hafist var handa við að einkavæða fannst mörgum óþægilegt í meira lagi að hinir nýju eigendur gátu keypt þjóðbankana fyrir þann arð sem þeir gáfu af sér. En umræðan um stórtæku jólasveinana í Stjórnarráðinu er að baki í bili en nú blasir við enn ein hliðin á málinu. Heita má að við séum komin heim ef svo má að orði komast. Við erum alla vega að nálgast fyrirheitna land þeirra Valgerðar Sverrisdóttur bankamálaráherra og Geirs H. Haarde fjármálaráðherra. Ég held að þau hljóti að vera ánægð með árangurinn. Einkavæðingin er vissulega byrjuð að blómstra og “heilbrigð” viðskiptalögmál farin að svínvirka. Landsbankinn keypti í vikunni starfsmenn samkeppnisaðilans. Gefum Sóloni R. Sigurðssyni bankastjóra Búnaðarbankans orðið um brottkeypta starfsmenn: "Þau eru öll með sterk viðskiptasambönd við okkar viðskiptavini og því afar óheppilegt og jafnframt óeðlilegt að þau fari að starfa beint hjá samkeppnisaðila. Það hefur ekki tíðkast hér á landi." Í Fréttablaðinu í gær segir formaður bankaráðs Búnaðarbankans að þessi mál veki upp spurningar um siðferði.
Rýtingur í stað samvinnu
Undir þetta vil ég taka heilshugar. Staðreyndin er sú að þegar Búnaðarbankanum var komið á fót á sínum tíma við hlið Landsbankans var það gert á grundvelli samstarfs og samvinnu. Mönnum bregður í brún þegar þeir átta sig á því að sú hugsun er horfin, alla vega hefur það verið markmið ríkisstjórnarflokkanna að koma þeirri hugsun fyrir kattarnef. Í hennar draumalandi koma menn ekki til fundar öðru vísi en með rýting uppi í erminni – samvinna er hinum nýju herrum framandi hugsun. Mikið held ég að það hljóti að vera ömurleg tilfinning fyrir starfsfólk Landsbanka og Búnaðarbanka að verða vitni að þeirri niðurlægingu sem þröngvað er upp á þessar gamalgrónu stofnanir; að ekki sé á það minnst að þurfa að hlusta á nýorpna fjármálamenn og óábyrga spekinga úr íslensku álitsgjafastéttinni tala um störf þessa fólks með lítilsvirðingu. Þetta voru staðnaðar stofnanir segja þeir – nú er eitthvað farið að gerast. Staðreyndin er hins vegar sú að við höfum átt á undanförnum árum og eigum mjög gott og faglegt bankakerfi – íslenskir bankar hafa í mörgu verið á undan erlendum bönkum og undirstaða þess hefur verið gott og hæft starfsfólk. Að mörgu má finna – það er t.a.m. mikilvægt að ná niður vöxtum á yfirvegaðan hátt. En að mönnum finnist það vera framfarir að afhenda fjármálamönnum þessar gamalgrónu stofnanir til að kreista úr þeim arð í eigin vasa og láta þá fara svona með starfsfólkið er sárt að verða vitni að. Vilja menn framhald á þessum atgangi á næsta kjörtímabili? Um það verður kosið 10. maí.