Fara í efni

ER GRÍMSSTAÐA-FRÉTT RÉTT?

Ég sá því haldið fram á á Moggavefnum og víðar að þú vildir að umsókn kínverska auðkýfingsins um leyfi til að kaupa Grímsstaði á fjöllum færi í þjóðaratkvæðagreiðlu. Þetta finnst mér galin hugmyndi. Annars á ég erfitt með að trúa þessu. Er þétta rétt eftir haft?
Forvitinn

Það er ekkert undarlegt að þér finnist þetta ótrúverðugt Jóhannes enda eru fréttir um þetta byggðar á misskilnigi. Í ræðu sem ég flutti í Ráðhúsi Reykljasvíkur í gær um lýðræði fjallaði ég meðal annars um álitamál sem gætu komið upp varðandi ákvarðanir. Þannig væru landamærin ekki alltaf skýr hvort ákvörðunarvald eigi að liggja hjá þjóðinni allri eða tilteknum hluta hennar, þ.e. sveitarfélagi. Þá væru víða óskýr siðferðileg mörk en í því sambandi benti ég á óljós landamæri almannahagsmuna og einkaeignarréttar.
Kaflinn sem hér er vísað í er svohljóðandi:

„Annað sem getur valdið togstreitu er hvaða lýðræðisheild eigi að taka ákvörðun um hvaða viðfangsefni. Taka Reykvíkingar einir ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar? Á þjóðin öll að koma að því máli? Hvað með Jökulárnar í Skagafirði, Landmannalaugar, Gullfoss eða Grímsstaði á Fjöllum? Hver á að hafa ákvörðunarvaldið yfir þessum stöðum, þeir sem hafa einkaeignarrétt á hendi, sveitarfélög, þjóðin öll? Hvar skarast réttur fjármagns og lýðréttinda?"

Hvað áhrærir undanþágu um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum þá er beiðnin í stjórnsýsluferli í Innanríkisráðuneytinu og þar verður málið til lykta leitt.
Kv.,
Ögmundur

p.s. ræða mín í heild er hér á síðunni: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/valdid-til-folksins

og slóðir á umræddar fréttir m.a. hér: http://mbl.is/frettir/innlent/2011/09/15/gmundur_jodaratkvaedi_um_flest/
http://mbl.is/frettir/innlent/2011/09/15/grimsstadamalid_i_kosningu/