Er hægt að kaupa traust og trúverðugleika?
Birtist í DV 07.05.2003
Mikið er þjóðfélag okkar gallalaust. Hvergi er að finna nokkra hnökra. Framúrskarandi réttsýnt fólk hefur stjórnað landinu okkar, fólk sem ber takmarkalausa virðingu fyrir umhverfi og náttúru, fólk sem ber hag aldraðra fyrir brjósti, fólk sem setur málefni sjúkra jafnan í forgang og allra þeirra sem eiga við vanda að stríða. Ábyrgð og festa einkennir stjórnarfarið og allt er í lukkunnar velstandi. Þetta er okkur nú sagt í látlausum auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi og á síðum dagblaðanna. Hér er dásamlegt að lifa. Hér er vinna, vöxtur og velferð, segja forkólfar Framsóknar og við hljótum að hrópa í einum kór rétt eins og hugmyndahönnuðir Sjálfstæðisflokksins; áfram Ísland, út af með dómarann!
Stjórnarflokkarnir kynna sig og verk sín
Heilir húsveggir eru nú betrektir með Halldóri Ásgrímssyni og Jónínu Bjartmarz, ekki dugir minna til að hamra það inn í vitund okkar hve mjög þau séu traustsins verð og góð við allt og alla. Ekki má heldur gleyma umhverfissinnanum Siv Friðleifsdóttur sem er búin að klappa og hlú að náttúrunni af mikilli natni. Sérstaklega hefur henni verið annt um Kárahnjúkasvæðið eins og öllum er kunnugt er um. Hún segir í sjónvarpsauglýsingu að okkur beri skylda að ganga vel um umhverfið, "bæði land og haf." Ungir Framsóknarmenn segja í bæklingi að spyrja þurfi þjóðina hvernig hún vilji ráðstafa náttúru landsins. Ekki er tíundað hvort slíkt skuli gert í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Og hvílík guðsgjöf hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið íslenskri þjóð. Hann hefur sýnt stórkostlega framsýni í öllu sem lýtur að velferð okkar og ef hans hefði ekki notið við væri hér allt á vonarvöl. Af auglýsingum Sjálfstæðisflokksins má ráða að það sé honum beinlínis að þakka að sjávarafurðir okkar seljist, ferðamenn komi til landsins, fólk setji á laggirnar fyrirtæki og að yfirleitt þrífist hér nokkur atvinnustarfsemi. Ekkert virðist gleymast. Að vísu er ekkert minnst á hlut flokksins í súrefninu sem er jú undirstaða lífs á landi voru.
Gleymist ekki eitthvað?
Þrátt fyrir áferðarfallega kynningu gerist sú hugsun áleitin að eitthvað fleira en súrefnismálin vanti í þessa mynd sem stjórnarflokkarnir draga upp í auglýsingum sínum. Öryrkjadómurinn er til dæmis gleymdur og hvergi koma við sögu náttúruspjöll af völdum stórvirkjana. Og ef ekki brestur minni mitt þá var á kjörtímabilinu eitthað skrafað um að annasamt hafi verið hjá Mæðrastyrksnefnd. Og hvað með allar biðraðirnar eftir húsnæði í kjölfar þess að ríkisstjórnin rústaði félagslega húsnæðiskerfinu 1998? Hvað með uppáklædda og gleiðbrosandi ráðherra þegar ríkisbankarnir voru afhentir í Þjóðmenningarhúsinu fyrir skemmstu? Hefði Framsóknarflokkurinn ekki getað fengið skot af þeim hátíðlegu uppákomum hjá sjónvarpsstöðvunum og sparað sér þannig útgjöld í auglýsingastríðinu? Flokkurinn minnir ekki einu sinni á að kaupendurnir hafi fengið þá á slíkum kostakjörum að þeir komi til með að borga sig upp sjálfir. Og ekki er minnst á helmingaskiptin, sem eru jú alltaf traustasti grunnurinn að góðu hjónabandi.
Peningafúlgum er ausið í fallegar og vel stroknar myndir en í heimildasöfnum sjónvarpsstöðvanna er til heilmikið efni sem stjórnarflokkarnir hefðu án efa getað fengið afnot af. En til að menn sækist eftir slíku efni þarf að sjálfsögðu að vera fyrir hendi áhugi á því að varpa upp sannri mynd af veruleikanum.
Samfylkingin er í söluham
Samfylkingin er í lit á flestum sínum auglýsingum og þar á bæ er mikið hugsað um völd og foringja. Ekki svo að skilja að Samfylkingin sé á móti foringjum. Síður en svo. Hún vill einfaldlega að sinn foringi ráði, að appelsínugula foringjahöndin fái lykilinn að Stjórnarráðinu. Annað veifið segist Samfylkingin vera félagslega sinnuð. En ekki kemur það nú sérstaklega fram í auglýsingum flokksins og sannast sagna er dapurlegt að hlusta á hvern talsmann hans á fætur öðrum vitna í það sem foringinn ætli að gera á komandi kjörtímabili. Allt er þetta þó í góðu lagi þangað til menn fara að villa á sér heimildir. Og er þar einmitt komið að inntaki þessarar greinar.
Er þetta alveg saklaust?
Er það eðlilegt og sjálfsagt að stjórnmálaflokkar kaupi sér pláss í fjölmiðlum í stórum stíl og leggi undir sig öll auglýsingaskilti landsins til að vegsama sjálfa sig – er það eðlilegt að stjórnmálamenn kaupi sér aðdáun og hól? Nei, það getur ekki talist eðlilegt en margfalt verra er þó ef dregin er upp röng mynd af raunveruleikanum. Auglýsingaflóði stjórnarflokkanna og Samfylkingarinnar er stefnt gegn öllu því sem sanngjarnt má kalla. En spyrja má; er auglýsingakapphlaupið um atkvæði fólks ekki að snúast upp í annað og miklu verra? Grefur það ekki undan lýðræðinu? Lýðræðið felst ekki bara í kosningum með reglulegu millibili heldur byggir það ekki síður á sannleik og trúverðugleika. Og þegar trúverðugleikinn er orðinn að söluvöru, rétt eins og þvottaefni eða kex, hvar á vegi erum við þá stödd? Væri ef til vill ráð að Neytendasamtökin skerist í leikinn, skoði auglýsingar flokkanna og bendi á hverjar þeirra eru að lýsa svikinni vöru? Það er eins gott að hafa hraðar hendur. Eindagi er 10. maí. Í þessum efnum verður réttur neytenda ekki tryggður eftir á.