Fara í efni

ER KOMIÐ AÐ ÞVÍ AÐ STJÓRNVÖLD ÞURFI AÐ RÖKSTYÐJA STÓRIÐJUSTEFNUNA?

Í Viðskiptablaðinu í dag segir: "Fjárfestingar í stóriðju kosta gríðarlega fjármuni og er líklegt að þeim geti verið betur varið í þjóðfélaginu á öðrum sviðum". Í blaðinu eru síðan færð rök fyrir þessu og virðist ljóst að nú er að eflast mun gagnrýnni umræða um stóriðjustefnuna en verið hefur. Sem kunnugt er birti greiningardeild KB banka álitsgerð nýlega í þessa veru. Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Sigurgeirrson, lýsir því hins vegar yfir í fréttum í gær að greiningardeild KB banka sé á villigötum varðandi þjóðhagsleg áhrif álframleiðslunnar. Stjórnarformaðurinn staðhæfir án þess að færa rök fyrir máli sínu. Svona eins og við þekkjum í gegnum tíðina. Jóhannes segir óumdeilt að stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi skaffi fjölda manns atvinnu. Að þessu leyti hefur stjórnarformaðurinn rétt fyrir sér. Það er óumdeilt að framkvæmdirnar hafi í heild sinni verið atvinnuskapandi á Austurlandi. Það sem er aftur á móti umdeilt eru hin þjóðhagslegu áhrif þessara framkvæmda, arðsemi þeirra og hvort aðrir kostir séu ekki heppilegri með tilliti til atvinnuuppbyggingar. Hvað þetta snertir hefur greingardeild KB banka sett fram alvarleg varnaðarorð um stefnu stjórnvalda. Myndin sem greiningardeild KB banka dregur upp, byggir ekki á staðhæfingum út í loftið, heldur á staðreyndum og líkindum. Með öðrum orðum, hún byggir á rökum.
Þetta hefur því miður skort á í umræðu um stóriðjustefnuna á liðnum árum. Vissulega hefur verið reynt að efna til málefnalegrar umræðu, þá ekki síst af hálfu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og af hálfu fjölda hagfræðinga og kunnáttumanna um þetta efni. Stjórnvöld hafa hins vegar komist upp með að staðhæfa án þess að þurfa að færa rök fyrir máli sínu. Slíkt er náttúrlega grafalvarlegt mál þegar um er að tefla framtíðarþróun íslensks atvinnulífs.
Þegar fólk horfir til tímabundinna umsvifa fyrir austan, vill það stundum gleymast að virkjunarframkvæmdirnar eru allar fyrir lánsfé og á kostnað skattborgara. Það er fráleitt að ráðamenn þjóðarinnar komist upp með að fjárfesta fyrir hundruð milljarða af skattfé án þess að færa ítarleg, eða yfirleitt einhver, rök fyrir stefnu sinni.
Fjölmiðlar bera hér mikla ábyrgð. Jón Steinsson skrifar mjög umhugsunarverðan pistil á Deigluna (deiglan.com), þar sem hann gagnrýnir fjölmiðla fyrir að gera jafn hátt undir höfði, annars vegar vel rökstuddu máli og staðhæfingum sem settar eru fram án haldbærra raka. Jón segir m.a.: "Þetta er hins vegar afskaplega ófullkomin röksemdafærsla. Tökum dæmi (sem lesendur Paul Krugman munu kannast við): Segjum að einhver sjálfskipaður spekingur haldi því fram að jörðin sé flöt. Núverandi starfshættir fjölmiðla á Íslandi myndu leiða til þess að fréttafyrirsögnin væri: „Lögun jarðarinnar: skiptar skoðanir” og fréttin myndi gefa spekingnum jafn marga dálksentimetra og prófessornum sem héldi því fram að jörðin væri hnöttótt. Sá sem engin deili kann á viðmælendunum tveimur (segjum að þeir hafi báðir voða flott starfheiti) veit ekki hvað hann á að halda. Kannski er jörðin flöt!
Það sem vantar augljóslega í slíka frétt er sú afskaplega mikilvæga staðreynd að nánast allir sem hafa kynnt sér rannsóknir og gögn um lögun jarðar eru sammála um að jörðin sé hnöttótt og einnig það að gríðarlegt magn tilrauna hafa sýnt fram á það svo ekki verður um villst að jörðin sé hnöttótt.
Með öðrum orðum, það sem vantar í fréttina er að sjónarmiðunum sé gefið mismunandi vægi eftir því hversu vel rökstudd þau eru. Íslenskir fjölmiðlar leggja það allt of sjaldan á sig að kynna sér hversu áreiðanlegar hinar og þessar rannsóknir og/eða skoðanir eru. Hversu stór hluti þeirra sem eitthvað vit hefur á málinu er sammála þeim og hversu mikið af gögnum styðja þær."
Ég er fyrir mitt leyti sannfærður um að hefðu stjórnvöld þurft að standa fyrir stefnu sinni í stóriðjumálum gagnvart gagnrýnum fjölmiðlum, hefði aldrei verið ráðist í Kárahnjúkavirkjun á þeim forsendum sem gert var. En betra er seint en aldrei. Ríkisstjórnin ætlar nefnilega að halda uppteknum hætti. Við sem gagnrýnt höfum stóriðjustefnuna, bæði utan þings og innan, munum gera okkar besta eins og við höfum reynt að gera til þessa. Vonandi munu íslenskir fjölmiðlar hlusta á hvatningu eins og þá sem birtist í ágætri hugvekju Jóns Steinssonar.

Það væri gríðarlegur ávinningur ef svo færi að stjórnvöld þurfi að fara að færa rök fyrir stefnu sinni í stóriðjumálum.  

Sjá grein Jóns Steinssonar: http://www.deiglan.com/index.php?itemid=9015