Er kominn tími til að líta í spegil?
- Það var verið að breyta NATO, taka inn fleiri ríki, og breyta um áherslur. Einn fyrir alla og allir fyrir einn eru þeir að tala um.
- Það er verið að þvinga fátækar þjóðir Austur-Evrópu til að kaupa bandarísk hergögn af fyrirtækjunum sem studdu Bush í forsetakosningunum. Síðast voru það Pólverjar sem eiga að kaupa 48 orustuþotur fyrir 3,8 milljarða Bandaríkjadollara, um 350 milljarða íslenskra króna.
- Það er verið að koma á fót árásarsveitum sem hægt er að beita hvar sem er og hvenær sem er við hinar ólíklegustu aðstæður.
- Það er verið að setja upp eldflaugaskjöld sem á að koma í veg fyrir árásir á Bandaríkin. Hernaðaruppbyggingin miðast ekki við getu óvinarins heldur þarfir hergagnaiðnaðarins og sóknarmöguleika Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.
- Þegar okkur nú berast fréttir af hraðri uppbyggingu CIA og FBI á miðlægum gagnabönkum þar sem á að vera unnt að keyra saman víðtækar og ólíklegustu upplýsingar um Bandaríkjamenn sjálfa, þá hljóta menn að staldra við og spyrja spurninga.
Hvernig fer með friðhelgi einkalífsins í Bandaríkjunum? Á að gera þá helgi að engu? Stendur stjórnvöldum í Washington ef til vill ógn af eigin borgurum? Og hvað með okkar eigin landsmenn; hvað meinti forsætisráðherra Íslands í kvöldfréttum í gær þegar hann sagði að liðin væri sú tíð að menn tækju andófsmenn vettlingatökum? Skyldu menn vera komnir út á hálar brautir?
Bush og bandamönnum á stórveldastóli verður tíðrætt um "möndulveldi hins illa". Skyldu þeir þurfa á spegli að halda til að sjá hvar það er að finna? Fyrir fulltrúa okkar þjóðar er verðugt að velta því fyrir sér hvort ekki er kominn tími til að finna sér aðrar fyrirmyndir?