Er lýðræðið til trafala?
Menn ræða nú mikið um stjórnarskrána og rétt kjósenda til að kjósa. Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn sagði í sjónvarpsviðtali í kvöld að með því að nýta stjórnarskrárákvæði um málskotsrétt væri forseti Íslands að gera landið óstjórnhæft. Hvað er hér átt við? Gengur málskotsrétturinn ekki út á að skjóta umdeildum málum til úrskurðar hjá þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu? Verður landið óstjórnhæft ef þjóðin kemur meira að ákvörðunum stórra mála? Á þingmaður Sjálfstæðisflokksins ef til vill við það að skapa þurfi stjórnarherrunum aukið svigrúm til athafna; að verja þurfi þá betur fyrir þjóðinni!? Er lýðræðið með öðrum orðum til trafala? Einhvern tímann hefði verið talað um einræðistilburði hjá mönnum sem svona töluðu, alla vega öfgafullt stjórnlyndi. Ef stigin eru nokkur skref til viðbótar þá eru menn komnir nálægt því sem samkvæmt alþjóðlegu tungutaki flokkast undir fasisma.