Er maðurinn ef til vill í rangri auglýsingu?
Birtist í Mbl
Ríkisstjórnin hefur gumað mjög af því að hún hafi bætt kjör launafólks með því að lækka skatta og vísar hún til þeirrar ákvörðunar að lækka skattprósentuna úr 41,88% með 5% hátekjuskatti í 38,34% með 7% hátekjuskatti. Vissulega er alltaf álitamál hvort skattalækkanir raunverulega gagnast almenningi sem kjarabætur. Það gera þær sannarlega ekki ef þær leiða til niðurskurðar á þjónustu og leiða af sér hækkun á gjöldum sem einstaklingarnir þurfa að greiða beint. Skattalækkanir geta því leitt til kjararýrnunar þegar upp er staðið. En látum það liggja á milli hluta að svo stöddu og staðnæmumst við þá fullyrðingu ríkisstjórnarinnar að hún hafi aukið kaupmátt launafólks, verkamannsins sem hallar sér ánægður fram á skófluna í heilsíðuauglýsingu Sjálfstæðisflokksins fyrir fáeinum dögum. Undir myndinni er fullyrt að laun erfiðis hans séu meiri en áður, enda hafi skattar lækkað um fjögur prósentustig.
Skattalækkanir og skattleysismörk
Nú er það svo að skattleysismörkin hafa ekki fylgt launaþróun í langan tíma og ættu að vera um 85 þúsund krónur en ekki 60 þúsund. En ef aðeins er litið skammt aftur í tímann, til upphafs þessa kjörtímabils, og skattleysismörk látin fylgja launaþróun frá þeim tíma, þá kemur í ljós að þau ættu að vera rúmar 70 þúsund krónur eða 10 þúsund krónum hærri en þau eru nú. Fram á þetta er sýnt í nýlegum útreikningum hagfræðinga ASÍ og BSRB, en skattahópar þessara samtaka hafa rannsakað áhrif skattkerfisbreytinga undanfarinna ára og rætt valkosti til úrbóta. Í sambandi við þessa útreikninga er athyglisvert að skoða samspil skattalækkana og frystingar á skattleysismörkum. Þá kemur í ljós að nýju fötin þeirra íslensku keisara sem nú stæra sig af kjarabótum í formi skattalækkana voru ekki efnismeiri en greindi frá í ævintýri H.C. Andersen um klæðalausa keisarann.
Vitnað í skýrslu hagfræðinga ASÍ og BSRB
Í skýrslu fyrrnefndra hagfræðinga segir: „... ef skattleysismörk hefðu fylgt þróun dagvinnulauna frá nóvember 1995 til nóvember 1998 og tekjuskattshlutfallið haldist óbreytt væri meðalskattbyrði einstaklinga með tekjur undir 180.000 kr. á mánuði lægri en meðalskattbyrðin er í dag, þrátt fyrir að skattprósentan væri fjórum prósentustigum hærri. Þessu er öfugt farið með þá einstaklinga sem eru með hærri mánaðartekjur en 180.000 kr.“ Nú er spurningin þessi: Hverjar eru mánaðartekjur verkamannsins í auglýsingu Sjálfstæðisflokksins? Ef þær eru yfir 180.000 kr. kann hann að hafa hagnast á skattbreytingunni. Ef þær eru hins vegar lægri eins og hjá þorra launafólks þá hefur hann tapað. Þá er líka ljóst orðið að hann hefur hafnað í rangri auglýsingu.