ER NÝJA RÍKISSTJÓRNIN MEÐ copy/paste PÓLITÍK FRÁ ESB?
Þegar Evrópusambandið kynnti Lissabon-áætlun sína árið 2000 var eitt helsta slagorðið að „Evrópa ætti að verða samkeppnishæfasta efnahagseining heims árið 2010". Ekki er nú útlit fyrir að það gangi eftir og vandséð hvað ESB hafði út úr slagorðinu annað en afsökun fyrir þá sem trúðu á markaðslausnir og að samkeppni væri leiðin að markinu til að keyra þá stefnu sína yfir önnur gildi. Því hefur ESB á síðasta áratug misst sjónar á öðrum markmiðum sem einnig voru sett í sambandi við Lissabon-áætlunina eins og t.d. umhverfis-og félagslegum markmiðum.
Nú virðist hin nýja ríkisstjórn Íslands ætla að falla í sömu gryfju, en eftir fyrsta ríkisstjórnarfundinn var kynnt ný sóknaráætlun, þar sem það er „eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar að Ísland verði orðið eitt af tíu samkeppnishæfustu ríkjum heims árið 2020." Þetta líkist óþægilega mikið copy/paste pólitík frá ESB.
Nú er það eitt að baka sjálfum sér vandræði með yfirlýsingum sem virðast fullkomlega óraunsæjar, eins og gerðist um árið þegar Ísland átti að verða „eiturlyfjalaust árið 2000." Slíkt óraunsæi varð annars ágætum málstað til lítils framdráttar.
Hitt er svo annað hvað liggur eiginlega í því markmiði að verða „eitt af tíu samkeppnishæfustu ríkjum heims árið 2020"? Á hvaða sviði ætlum við að skjóta öðrum þjóðum ref fyrir rass í hinni alþjóðlegu samkeppni? Ætlum við að tæla erlend fyrirtæki til að setjast hér að af því að hér þurfa þau að borga lægri skatta en annars staðar? Sem þýddi auðvitað minna fé til velferðarkerfisins. Eða vill ríkisstjórnin bjóða þeim að keppa á sviði „hagstæðara" launaumhverfis fyrir fyrirtækin, sem þýðir lægri laun og minna atvinnuöryggi fyrir launafólk? Vill ríkisstjórnin feta í fótspor ESB og einkavæða opinbera almannaþjónustu, eins og t.d. almenningssamgöngur og raforkugeirann, með þeim afleiðingum að fleiri hundruð þúsund hafa tapað starfi sínu, afhendingaröryggi minnkað, verð hækkað og að Evrópa býr nú við fákeppni einkafyrirtækja á raforkumarkaði? Á kannski að trekkja að með því að bjóða aðgang að náttúruauðlindum á hagstæðum kjörum?
Ég vildi gjarna fá skýringar á því hvað þessi lúðrablástur nýju vinstri ríkisstjórnarinnar á eiginlega að þýða. Gætir þú hugsanlega skýrt það út fyrir mér, Ögmundur?
b.kv.
Helgi
Þakka bréfið. Athyglisverðar vangaveltur. Þér sammála.Við eigum að skoða það eitt að gera vel fyrir okkar samfélag. Hins vegar er ég sannfærður um að núverandi ríkisstjórn er sú besta sem völ er á. Fín, frábær en verkefnið að gera hana ennþá betri. Talsvert svigrúm til þess. Hjálpumst að.
Kv.
Ögmundur