ER REYKJAVÍKURBORG SVONA ÓDÝR?
09.05.2008
Ekki ætla ég að útiloka að eitthvað geri Rio Tinto Alcan vel. Eitt veit ég þó að Rio Tinto Alcan er engin brautryðjandi í umhverfismálum. Því fer fjarri. Reyndar svo fjarri að Río Tinto er talinn einhver versti og ósvífnasti umhverfissóði heimsins. Þessu fyrirtæki hefur Reykjavíkurborg nú heimilað að kaupa sig inn í átak um að fólk hjóli eða gangi í vinnuna. Mér er kunnugt um að svo ofbjóði jafnvel hörðustu umhverfissinnum samanlögð ósvífni stjórnvalda í Reykjavík og Rio Tinto að þeir hafi varla geð í sér að taka þátt í átakinu. Fólki finnst með öðrum orðum það vera misnotað.
Þetta minnir óneitanlega á það þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sæmdi stríðsglæpafyrirtækið og umhverfisspillinn Bechtel sérstökum umhverfisverðlaunum í apríl í fyrra! ( sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/jonina-bjartmarz-umhverfisverdlaunin-og-hinar-syrgjandi-maedur ).
Svo ævintýralega fráleitt var þetta að mér er það enn hulin ráðgáta hvers vegna þetta varð ekki heimsfrétt. Kannski tók heimspressan Kárahnjúkaríkisstjórnina ekki nógu alvarlega til að hún nennti að gera úr þessu mál. En gæti verið að Reykjavíkurborg hafi nú toppað verðlaunaveitinguna til Bechtel með því að láta áhugafólk um náttúruvernd og heilbrigt líferni ganga og hjóla í vinnuna með merkimiða frá Tinto Alcan!
Varla er þetta heilsufarsátak mjög kostnaðarsamt. Varla svo að Reykjavikurborg ráði ekki við það. Hvers vegna er auðhringnum heimilað að kaupa sig inn á okkur Reykvíkinga með þessum hætti? Erum við svona billeg?