ER RÚV GENGIÐ Í SAMFYLKINGUNA?
Í gærkvöldi voru ítarlegar fréttir af kjaradeilu ljósmæðra. Ekkert nema gott um það að segja og fullkomlega eðlilegt. Nema hvað undir lok umfjöllunarinnar var okkur sagt að læknar á fæðingardeildum styddu ljósmæður og það gerði Samfylkingin líka! Jóhanna Vigdís fréttamaður sá sérstaka ástæðu til að segja að kvennahreyfingin í Samfylkingunni væri með ljósmæðrum. Látum nú vera að ekki skuli sagt frá því að bæði stjórn og flokkráðsfundur VG hafi nýlega sent stuðningsyfirlýsingu og ályktanir, en hitt þykir mér ævintýralegt með hvaða hætti fréttastofan meðhöndlar yfirlýsinguna frá Samfylkingunni. Ekki svo að skilja að ég telji ekki eðlilegt að frá henni sé sagt. Þvert á móti átti að segja miklu meira frá henni og á allt annan hátt. Þetta var nefnilega tilefni til að spyrja Steinunni Valdísi hvort hún hefði sent Ingibjörgu Sólrúnu ályktunina og hvernig hún hefði tekið henni og í framhaldinu hefði mátt spyrja hvort þetta hefði verið rætt við borð ríkisstjórnarinnar, hvort um þetta væri ágreiningur, hvort Samfylkingin væri góði flokkurinn í þessari deilu en Sjálfstæðisflokkurinn vondi flokkurinn. Eða hvort þetta væri bara eintómur loddaraskapur í Samfylkingunni til þess eins að ganga í augun á ljósmæðrum án þess þó að fyrir því væri nokkur innistæða. Bara blekkingarvaðall eina ferðina enn? Sjónvarpið afgreiddi málið á eins ómálefnalegan hátt og hugsast getur en jafnframt ramm-pólitískan. Með framsetningunni var nefnilega tekin eindregin afstaða. Ekki afstaða með ljósmæðrum. Heldur með Samfylkingunni. Er RÚV ohf. kannski gengið í Samfylkinguna?
Haffi