Fara í efni

ER SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN ORÐINN ÞRÖNGSÝNNI?

Birtist í Morgunblaðinu 18.04.06.
Í rúma þrjá aldarfjórðunga, eða allar götur frá því Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930, hefur það vaxið og dafnað sem ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar. Starfsmenn stofnunarinnar skópu hefðir sem urðu kynslóð fram af kynslóð vegarnesti til frekari uppbyggingar. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins vildu axla skyldur í menningarlegu og lýðræðislegu tilliti. Þetta gerðu þeir í samræmi við tíðarandann sem lengst af einkenndist af sóknarhug í þágu menningar og lista. Útvarpsleikhúsið varð fjölsóttasta leikhús þjóðarinnar, tónlistarfamboðið varð eftir því sem fram liðu stundir gróskumikið, allt frá vinsælli dægurtónlist til framúrstefnu og tilraunamennsku. Sinfóníuhljómsveitin kom til sögunnar og var sett undir verndarvæng Ríkisútvarpsins. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins skynjuðu að í þessu var styrkur Ríkisútvarpsins fólgin: Í skyldunum við menninguna og menningararfinn.

Er menningin baggi?

Nú er öldin önnur, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Sinfónían er orðin baggi á Ríkisútvarpinu. Burt með hana. Hugleiðingar talsmanna menningar, manna á borð við Jón Þórarinsson, tónskáld og forstöðumann Lista- og skemmtideildar Sjónvarps til margra ára, eru látnar lönd og leið. Hann minnti okkur á það í prýðilegri grein í Morgunblaðinu 11. mars á síðasta ári að í umræðunni um Ríkisútvarpið hafi verið litið á Sinfóníuna sem hvern annan ómaga, og talin hin mesta nauðsyn fyrir Útvarpið að létt væri af því „framlagi"“ til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem á þessu ári er sagt nema 118,5 millj. kr. Látið er líta svo út sem þetta sé hreinn „framfærslustyrkur“, sem Útvarpið hafi verið blekkt eða kúgað til að taka á sig, og hvergi er á það minnst að neitt komi á móti „framlaginu“ eða Útvarpið fái neitt fyrir snúð sinn...“ Jón Þóararinsson hælir Útvarpinu en gagnrýnir Sjónvarpið fyrir að hafa ekki í seinni tíð nýtt sér betur krafta Sinfóníuhljómsveitarinnar: Tónleikarnir eru glæsilegur þáttur í íslenskum tónlistarflutningi Rásar 1, og raunar ein af helstu skrautfjöðrum dagskrárinnar…Það skal viðurkennt að ekki eru allir tónleikar ákjósanlegt sjónvarpsefni, en sumir eru það. Vínartónleikar eru eftirsóttir í sjónvarpi í mörgum löndum, einnig óperutónleikar, svo að eitthvað sé nefnt. Og oft eru einstök verk á tónleikum sem mjög gætu lífgað sjónvarpsdagskrá, þótt tónleikarnir séu ekki teknir í heild… Verðið hefur verið lágt, á aðra milljón króna, en gefur þó hugmynd um þau verðmæti sem dagskrárstjórn Sjónvarpsins hefur ekki hirt um að nýta þótt þau standi því til boða endurgjaldslaust.“
Aðeins þegar verðmæti dýrmætrar fiðlu kemur til álita má kenna lífsmark með forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri reisir sig og segir að fiðluna góðu eigi að skrá á eignareikning RÚV. Það þykir fjármálaráðuneytinu líka – það er að segja á sinn reikning! Ekki ætla ég að blanda mér í deiluna um fiðluna þótt sjálfum finnist mér eðlilegast að hún heyri þeim til sem hana notar.

Talsmenn RÚV hf á þingi vilja selja

Talsmenn lagafrumvarps ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu RÚV fara nú mikinn. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, sem hefur skipað sér þar í framvarðarsveit, sagði í Morgunblaðsgrein nýlega, „að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan…”  Það er rétt hjá Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, að það er aðkallandi að bæta fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Í ágætri úttekt í Morgunblaðinu 6. mars á síðasta ári var haft eftir forráðamönnum Ríkisútvarpsins „að tekjur stofnunarinnar á síðustu árum hafi ekki fylgt launaþróun í landinu. Séu afnotagjöldin uppreiknuð miðað við launavísitölu drógust þau saman um 19% á árunum 1994-2004, auglýsingatekjur hafa með sama útreikningi lækkað mun minna en heildartekjur drógust saman um 15% á liðnum áratug, miðað við launavísitöluna“.
Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hafa kvartað sáran undan þessari stöðu. Skyldi það ekki verða þeim umhugsunarefni nú, að þeir alþingismenn sem mest hafa talað fyrir frumvarpi menntamálaráðherra eru sömu þingmennirnir og sjálfir hafa lagt fram lagafrumvarp um að leggja Ríkisútvarpið niður! Formaður menntamálanefndar Alþingis, Sigurður Kári Kristjánsson, sá hinn sami og hefur fengið það verkefni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að sannfæra þing og þjóð um að hagur Ríkisútvarpsins verði tryggður, hefur sjálfur, og það meira að segja nýlega, talað fyrir því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi og það síðan selt. Er þetta traustvekjandi? Svari hver fyrir sig.