Fara í efni

ER SLÆMT AÐ VAKA UM DIMMAR NÆTUR?

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 17/18.02.18.

Bí, bí og blaka,
álftirnar kvaka,
ég læt sem ég sofi,
en samt mun ég vaka.

Bíum bíum bamba,
börnin litlu ramba
fram um fjalla kamba
að leita sér lamba.

Hver þekkir ekki hljómfögru barnagælurnar sem skáldin hafa eftirlátið okkur til að syngja börnin okkar í svefn, dreifa huga þeirra, þar til Óli lokbrá tekur völdin, bí bí og blaka, álftirnar kvaka ...

Það var Sveinbjörn Egilsson sem kvað þessar litlu stökur og ekki er síður angurvært rökkurljóð Jóhanns Sigurjónssonar:

Sofðu, unga ástin mín,
- úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Þetta kom upp í hugann þegar starfshópur ríkisstjórnarinnar um Kjararáð skilaði af sér áliti um að ráðið yrði lagt af. Og forseti ASÍ var að sjálfsögðu kallaður í beina útsendingu í fréttatíma Sjónvarps til að inna hann eftir því hvort tillögurnar myndu duga til að róa stjórn Viðskiptaráðs sem ekki hefur orðið svefnsamt eftir að ljóst varð að ákvarðanir Kjararáðs lýstu upp íslenskt kjaraumhverfi, þar á meðal þeirra eigin kjör, á þann hátt að stórkostleg hætta stafaði af.

Hættan sem af þessu stafaði var sú, eins og margoft hefur komið fram, að láglaunafólkið vaknaði af værum blundi og færi að gera kröfur um að fá réttlátari hlut sem tæki mið af þeim kjörum sem Kjararáð hafði opinberað með úrskurði sínum. „Það er margt sem myrkrið veit", orti Jóhann Sigurjónsson, og þannig vilja þeir Gylfi  hjá ASÍ og Halldór Benjamín hjá SA helst hafa það, í anda þess sem Gestur, Guðmundur Björnsson, réttu nafni, kvað:

Þei, þei og ró, ró.
Brátt mun birtan dofna,
barnið á að sofna.
Þei, þei og ró, ró.
Barnið á að blunda í ró.

Þei, þei og ró, ró.
Blessað litla lífið,
laust við jarðarkífið.
Þei, þei og ró, ró.
Blunda elsku barnið í ró.

Talsmenn „aðila vinnumarkaðar" segja að tillögusmiðir ríkisstjórnarinnar hafi nú vissulega lagt til framfaraskref þótt þeir hefðu kosið að það yrði stærra.
Eftir einu hjó ég, nefnilega að kjör þingmanna og ráðherra yrðu samkvæmt tillögunum ákveðin með lögum.

Þetta hef ég sjálfur áður lagt til og flutt um það þingmál. Þá þyrftu fulltrúar á Alþingi að standa skil  gerða sinna. Mín tillaga var þá sú að þingmenn ákvæðu eigin laun helst í sömu vikunni og þeir ákvörðuðu kjör öryrkja. Þar með færi umræðan inn í þann farveg sem ég hefði helst viljað sjá opnast: Að rætt yrði um launa- og kjarahlutföll, réttlæti og ranglæti en ekki hitt hvernig megi koma í veg fyrir að þau sem eru hlunnfarin í þjóðfélaginu komi auga á ranglætið og rísi upp til baráttu, þei, þei og ró, ró. 

En barátta kallar á árvekni, að vaka verður um dimmar nætur. Bót í máli er vissan um að þá muni líka fyrr en varir lýsa af nýjum degi. Það er góð tilhugsun.