Fara í efni

ER ÞAÐ STEFNA RÍKISSTJÓRNARINNAR AÐ BOLA FÓLKI ÚT ÚR STÉTTARFÉLÖGUM?

Birtist í Blaðinu 04.01.07.
Um áramótin tók Matís ohf. til starfa. Það bar til tíðinda á fundi með starfsmönnum fyrir fáeinum dögum að Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður, lýsti því yfir að stjórn hins nýstofnaða hlutafélags vildi ekkert hafa með stéttarfélög að gera!

Á fulla ferð aftur á bak

Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart úr munni fyrsta formanns Félags frjálshyggjumanna, sem stofnað var undir lok áttunda áratugar síðustu aldar. Það félag var stofnað til að hrinda í framkvæmd hugsjónum Friedmans, Hayeks, Hólmsteins, Thatchers og Reagans. Fyrsta boðorð þessa safnaðar var að bregða skyldi fæti fyrir samtök launafólks. Verkalýðshreyfingin væri hættulegasti einokunarhringurinn í samfélaginu og forsenda þess að greiða götu óheftra markaðsviðskipta væri að koma hreyfingunni fyrir kattarnef. Þetta var alveg kýrskýrt af hálfu þessa fólks enda gengu þau Thatcher og Reagan til verks í þessum anda.
Þetta var að vísu á síðustu öld. En það er einmitt um baksýnisspegilinn sem peningafrjálshyggjan skoðar heiminn. Helst vill hún komast alla leið aftur á 18. öldina. Þá var ekki miklum samfélagsrekstri fyrir að fara og allt var á forsendum handhafa fjármagnisns. Björgólfar þess tíma réðu öllu.

Hugsjónir aldrei þvælst fyrir eiginhagsmunum

Markaðshyggjufólkið sem hér er vísað til var upptendrað af hugsjónum og vildi breyta þjóðfélaginu; báknið burt hét það á þessum árum. Hugsjónirnar stóðu því þó aldrei sérstaklega fyrir þrifum. Þannig lét það hugsjónir sínar aldrei aftra sér frá því að taka að sér verkefni á vegum ríkisins eða setja sig yfir fyrirtæki í ríkiseign. Þannig hefur þetta verið í öllu einkavæðingarferlinu. Einörðustu andstæðingar ríkisreksturs hafa verið manna fúsastir til að taka að sér slíkan rekstur með tilheyrandi hlunnindum.
Og nú er sem sé komið að fyrsta formanni Félags frjálshyggjumanna, Friðriki Friðrikssyni, hinum nýja stjórnarformanni Matís að láta til sín taka.

Áfram starfsmenn ríkisins en sviptir réttindum

Nokkur orð um aðdragandann: Með lögum, sem samþykkt voru á Alþingi fyrr á þessu ári, var ákveðið að stofna hlutafélag sem upphaflega átti að nefnast Matvælarannsóknir hf. um rekstur Rannsóknastofnunar fískiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Síðar var ákveðið að breyta nafni hins nýja félags í Matís ohf.
Fyrirtækið á samkvæmt lögum sem um það gilda alfarið að vera í eigu íslenska ríkisins, stofnfé ákveðið í fjárlögum en sjávarútvegsráðherra á að fara með eignarhlut ríkissjóðs í félaginu. Matís á með öðrum orðum að lúta stjórn ríkisvaldsins og ríkið ber áfram ábyrgð á starfseminni. Starfsmennirnir verða þannig í reynd áfram starfsmenn ríkisins en án þeirra réttinda sem um ríkisstarfsmenn gilda!
Af hálfu starfsmanna stéttarfélaganna var lögð rík áhersla á að við rekstrarformsbreytinguna yrði réttur fólksins til að halda stéttarfélagsaðild sinni virtur og að frá slíku yrði gengið áður en lögin kæmu til afgreiðslu.

 Hafa stjórnendur sjálfdæmi um framkomu við starfsfólk?

 Frá því er skemmst að segja að það gekk ekki eftir. Síðan hefur starfsfólk og fulltrúar þess ítrekað gengið eftir því að rammasamkomulag yrði gert sem vísaði inn í framtíðina. Við þessu hafa stjórnvöld skellt skollaeyrum.
Í framhaldinu hljóta menn að spyrja: Var hlutafélagavæðingin til þess eins að skerða réttindi starfsmanna? Hafa stjórnendur hlutafélaga í eigu ríkisins sjálfdæmi um hvernig þeir koma fram við starfsfólk og samtök þess? Eða er það stefna ríkisstjórnarinnar að bola fólki út úr stéttarfélögum?

------------------------------

Athugasemd: í greininni hér að ofan, sem birtist í Balðinu í gær hafði ég talað um Frjálshyggjufélagið í stað Félags frjálshyggjumanna. Það var einnig rangt hjá mér að það félag hafi verið stofnað í byrjun níunda áratugar síðustu aldar. Það var stofnað undir lok hins áttunda áratugar, nánar tiltekið 8. maí 1979. Þetta hefur verið leiðrétt í greininni sem hér birtist.