Fara í efni

ER ÞÉR TREYSTANDI?

Sæll sértu Ögmundur. Þú hefur ekki hugmynd um hvað ég er vonsvikinn og dapur yfir því að þú skyldir taka markvissa ákvörðun um að leyfa þjóðinni EKKI að greiða atkvæði um Icesave samning ykkar Steingríms, Jóhönnu og Bjarna Ben. 33-30 fór það. Nú sækja alvarlega á mig vomur hvort þér sé treystandi til baráttu fyrir opnu og virku lýðræði, eða hvort þú sért bara lítill hluti af þeirri stjórnmálaelítu sem samfylkir nú með fjármálavaldinu gegn alþýðu heimsins, líkt og Hreinn K bendir réttilega á. Ögmundur minn, mér sýnist þú nú hafa tungur tvær og það veldur mér depurð, því ég treysti þér áður til góðra verka og trúði því að tunga þín væri hrein. Þú getur talað um reglustrikað kerfi íslenskrar stjórnsýslu og falið þig endalaust þar á bakvið. En málið snýst samt alltaf um það í lífi sérhvers manns að taka ákvörðun um hvort hann vill vera þúfa eða hluti af stóru hlassi. Í mínum augum hafa þúfurnar fegurð sem má líkja við liljur vallarins, en hlassið, ó hvað það er íþyngjandi farg fyrir okkur Tolstoj á tímans ferð okkar um lendur jarðar meðan Majakovskí flytur okkur tíðindin: Tími...þú hinn halti helgimyndaklastrari.
Jón Jón Jónsson

Heill og sæll og þakka þér bréfið. Tungur tvær hef ég ekki. Ég tók þótt í að koma Icesave málinu í þann farveg sem það hefur verið í síðustu mánuði og skilað hefur okkur margfalt betri niðurstöðu en áður var í boði. Það var Alþingis að reka endahnút á þetta ferli í atkvæðagreiðslu þar innandyra. Síðan er það þjóðarinnar að vega og meta hvort hún telji málið þannig vaxið að það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann vilja sýnir fólk í undirskriftasöfnun eins og við þekkjum. Í gær voru undirskriftir afhentar forseta Íslands - alla vega þær sem þá höfðu safnast. Niðurstaða liggur ekki fyrir.
Annars hélt ég að ég hefði sýnt það í verkum mínum að ég kem hreint fram í þessu máli og hef ég aldrei látið eigin hag þvælast fyrir mér. Ég hef haft á þessu máli ríkar skoðanir og jafnan reynt að koma því úr slæmum í skárri farveg. Í þeim efnum hefur ekki alltaf verið margt í boði.  Að einhverju leyti hefur þetta þó tekist. Því verður ekki neitað.
Kveðja,
Ögmundur