Er þessum mönnum ekkert heilagt?
Þegar hin hryllilegu fjöldamorð voru framin í Beslan í Rússlandi fyrir fáeinum dögum mótmælti heimurinn nánast einum rómi. Bush Bandaríkjaforseti notaði stór orð og utanríkisráðherra Íslands spurði hvort þessum mönnum væri ekkert heilagt. Almennnigur á Íslandi kveikti friðarljós sem loguðu í gluggum nóttina eftir að ódæðið var framið. Sjálfur var ég í þeim hópi. Ef menn gætu nú verið örlítið sjálfum sér samkvæmir í samúð með fórnarlömbum hernaðarofbeldis. Báðir þegja þeir Bandaríkjaforseti og íslenski utanríkisráðherrann þótt lífið sé murkað úr saklausu fólki dag hvern í Írak.
Eftrirfarandi er úr frétt Morgunblaðisins 10. september skömmu eftir Beslan morðin: "KONUR og börn voru á meðal tólf Íraka, sem voru drepnir í loftárásum bandarískra herþotna á borgina Fallujah í gærmorgun. Bandaríkjamenn telja að uppreisnarmenn hafi leynst á svæðinu. Ein bandarísku eldflauganna lenti á íbúðarhúsi og fjarlægði fólk úr nágrenninu líkamsleifar úr rústum þess í gærmorgun. Íbúarnir voru í fasta svefni þegar eldflaugin hæfði bygginguna. Að sögn Mushtak Taleb, læknis á sjúkrahúsinu í Fallujah, var komið með tólf lík þangað, þar af fimm barna og tveggja kvenna, þá hefðu a.m.k. níu manns særst í árásunum. Að sögn vitna var fólkið í fasta svefni á þaki húss síns þegar eldflaugin kom eins og þruma úr heiðskíru loft beint á húsið. Nokkur önnur hús skemmdust."
Er þessum mönnum ekkert heilagt?
Hafsteinn Orrason