Fara í efni

ER ÞJÓÐIN TILBÚIN AÐ BORGA?


Ég hlustaði á nokkra útvarps- og sjónvarpsþætti helgarinnar og fylgdist með flestum fréttatímum. Taugaveiklun er greinilega ríkjandi. Ekki undarlegt því gjaldeyrisviðskipti eru  komin niður undir frostmark; vöruskortur farinn að gera vart við sig. Og það sem verra er: Útflytjendur eiga erfitt með að koma greiðslum á milli landa. Það er grafalvarlegt mál og getur haft illar afleiðingar næstu daga og vikur, jafnvel ár ef viðskiptasambönd eyðileggjast. Viðmælendur í fréttþáttum sögðu að eitthvað yrði að gerast á næstu klukkustundum - í hæsta lagi á næstu dögum - hvers vegna væri ekki fyrir löngu búið að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn  vill semja við  hrætt fólk

Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hentar vel að hafa þjóðina í taugalosti. Hans markmið er að tryggja að Íslendingar greiði erlendum  lánadrottnum sínum sem allra mest - ekki bara þessi kynslóð - heldur einnig sú næsta og þarnæsta. Því fyrr sem Íslendingar leggist á hnén og undirriti uppgjafarskjölin þeim mun betra - frá sjónarhóli heimslögreglu kapítalismans. Varðandi uppgjör bankanna og utanumhald eigna þarf vissulega snör handtök og umfram allt markviss vinnubrögð. Varðandi samninga við erlenda lánadrottna  er hins vegar lífsnauðsynlegt að fara hægar í sakirnar. Þar þarf að hugsa í áratugum og í kynslóðum. Það gerir hrætt fólk og taugaveiklað ekki. Það hugsar í klukkustundum - í besta falli dögum og vikum. Þetta hefur Naomi Klein bent á í frægri bók sinni The Schok Doctrine. Hún segir þar að illum breytingum sé ákjósanlegat að hrinda í framkvæmd þegar fólk er í losti og af þeim sökum með takmarkaða dómgreind.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn: Skuldsetjið börnin - þá er allt klárt

Í Ráðherrabústaðnum hefur ríkisstjórnin haldið til undanfarnar vikur. Þar er orðið þungt loft. Í þessum súrefnislausa heimi eru ráðherrar greinilega að tala sig inn á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé í rauninni  ósköp spök skepna.  Það er náttúrlega ekkert skrítið að hægri sinnuð ríkisstjórn skuli hugsa þannig. Sendinefndir sjóðsins hafa hrósað ríkisstjórn Íslands í hástert mörg undanfarin ár. Hér eru háir vextir, búið að einkavæða án afláts og opna landið alþjóðakapítalinu. Og með Árna Mathiesen sem fjármálaráherra, Guðlaug Þór  með heilbrigðismálin, orkustefnu Samfylkingarinnar, vilja innan ríkisstjórnarinnar til að markaðsvæða íbúðakerfið - þá lítur út fyrir að lítil skilyrði þurfi að setja. Allt klárt þegar Íslendingar eru búnir að skuldsetja börnin sín. Á því hefur staðið.

Samfylkingin lyppast niður

Samfylkingin hefur löngum verið veik fyrir fínu fólki frá útlöndum. Í fréttum í kvöld kom enda  í ljós að hún er þegar komin á hnén. Og Geir á leiðinni. Utan Ráðherrabústaðarins spyrja menn hins vegar hvaða umboð fólk þar innandyra hafi til að leggja á komandi kynslóðir níðþungan skuldaklafa. Hverju hefur Árni Mathiesen fjármálaráðherra  lofað fyrir okkar hönd? Er hann viss um að þjóðin sé tilbúin að borga?
Heldur ríkisstjórnin að hún hafi þjóðina í vasanum? Getur verið að í reynd hafi ríkisstjórnin glatað umboði til að gera það sem hún nú hefur á prjónunum? Hvað ef fólkið hreinlega neitar að borga?

Veruleikafirrtir braskarar

Ég ráðlegg ráðandi stjórnmálamönnum að fara að hugsa sinn gang. Ég ráðlegg líka veruleikafirrtu bankaliði  að spara svolítið vandlætinguna yfir því að hafa ekki fengið frekari uppbakningu og stuðning af Seðlabanka og gjaldmiðli. Í fréttaþáttunum yfir helgina voru mættir nokkrir helstu talsmenn og verkstjórar í þeirri atburðarás sem er í þann veginn að kollkeyra þjóðfélagið og svipta okkur ærunni. Þeir töluðu með vandlætingu um hve illa að þeim hefði verið búið með handónýtan gjaldmiðil  og lítinn sem engan stuðning frá Seðlabanka þegar þá vantaði skotsilfur - alvöru pening - í spilavítinu.  Við töpuðum sögðu þau því við fengum ekki meiri spilapening inn á græna borðiðð. En að horfa gagnrýnið í í eigin barm. Það virðist þeim fyrirmunað að gera. 

Hvenær á að axla ábyrgð?

Nú eygir þetta fólk það ráð helst að skríða uppi kjöltu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða Evrópusambandsins. Hafa þau ekkert fylgst með? Er þeim ekki kunnugt um hrun banka í ríkjum Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum? Þar var nefnilega líka skortur á lausafé til að halda spilamennsku áfram. Hvenær skyldi upp renna sá tími að fólk axli ábyrgð á eigin gerðum?