ERLENDUR, KÚRDAR OG MÍN KYNSLÓÐ
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.12.20.
Ekki svo að skilja að Erlendur Haraldsson hafi verið einn á báti að kynna málstað Kúrda fyrir minni kynslóð þegar hún var að komast til vits og ára, en hann var það sem kalla má primus motor.
Ég hef oft hugsað út í það hverju það sætti að þau okkar, sem fædd erum um miðja öldina sem leið, vissum eins mikið og raun bar vitni um tilvist Kúrda suður í álfum, sum að sjálfsögðu betur að sér en önnur, en allflest höfðum við þó haft einhverja nasasjón af þessari fjallaþjóð.
Og þarna kemur að Erlendi Haraldssyni sem andaðist í vikunni sem leið tæplega níræður að aldri. Hann hafði numið sálarfræði í Þýskalandi og í Bandaríkjunum, gert dulsálarfræði að sérgrein sinni og skrifað um hana og birt á mörgum tungumálum.
En það eru Kúrdaskrif Erlendar sem ég staðnæmist við. Hann hafði lagt land undir fót í orðsins fyllstu merkingu, haldið til Bagdad, höfuðborgar Íraks og þaðan norður á bóginn til átakasvæðanna þar sem frelsissveitir Kúrda háðu baráttu í vörn og sókn gegn íraska hernum. Um ferð sína skrifaði Erlendur leiftrandi lýsingu í bók sem Skuggsjá gaf út árið 1964 og bar heitið Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan. Hann skrifaði einnig nokkrar ítarlegar greinar í Samvinnuna sem á þessum árum var fjörugt og víðlesið tímarit.
Þetta gleyptum við mörg í okkur og miðluðum svo öðrum eftir atvikum. Þannig seytlaði út fróðleikur um Kúrda.
Bók Erlendar rifjaði ég nýlega upp eftir að vinur minn einn færði mér hana að gjöf. Stóð til af okkar hálfu að fá fund með meistaranum til að hlýða á frásagnir hans. Ég hafði hitt Erlend fyrir ekki svo ýkja löngu og vissi að hann var enn í fullu fjöri. Þá var hann nýkominn úr heimsókn til Barzanis þjóðarleiðtoga íraskra Kúrda. Réð ég af lýsingum hans á móttökum þar syðra að honum hefði verið tekið með kostum og kynjum enda vinur valdaættarinnar og nánast sendiherra Kúrda í Evrópu fyrr á tíð. Meðan á Þýskalandsdvöl Erlendar stóð var hann nefnilega um árabil formlegur talsmaður Kúrda í norðanverðri Evrópu og varaforseti Alþjóðasambands Kúrda. Þegar ég hef hitt íraska Kúrda á fundum í Evrópu um málefni Kúrda, sem ég hef marga sótt, þá hafa menn af minni kynslóð og eldri allir þekkt til Erlendar og haft um hann viðurkenningarorð.
En Erlendur Haraldsson var ekki einn um að miðla upplýsingum um Kúrda af þekkingu og innblæstri. Þar stöndum við einnig í þakkarskuld við Dag Þorleifsson, rithöfund og blaðamann sem hélt til Kúrdistan undir lok sjöunda áratugarins, nokkru síðar en Erlendur. Birti hann greinar um ferðir sínar og almennt um málefni Kúrda í Þjóðviljanum og víðar á þessum árum.
Í mín eyru nefndi Erlendur þá Dag Þorleifsson og Pál Kolka, lækni, gjarnan í sama orðinu sem öfluga málsvara Kúrda. Sagði Erlendur að Páll hefði verið þeirra dugmestur í að safna fé til stuðnings Kúrdum. Fleiri nefndi hann til sögunnar. Í grein í Samvinnunni frá árinu 1968 rifjar Erlendur það upp að árið 1966 hafi verið stofnað sérstakt Kúrdavinafélag undir forystu Helga Briem, sendiherra, sem hafi verið manna fróðastur um sögu Kúrda. Hann segir líka frá því að þetta vináttufélag hafi að frumkvæði Páls Kolka haft samband við Íslandsdeild Rauða krossins og hafi það leitt til þess að Alþjóðarauðikrossinn hafi farið að veita hlutskipti Kúrda aukna og velviljaða athygli.
Ekki ætla ég mér þá dul að fara hér inn í flókna sögu Kúrda og margbreytileikann sem er að finna hjá þessari fjölmennu þjóð sem telur tugmilljónir og býr í fjórum ríkjum.
Það sem ég vildi sagt hafa er hve ánægðir menn á borð við Erlend Haraldsson, Dag Þorleifsson og þeirra likar mega vera með sín verk sem skiluðu sér inn í vitund heillar kynslóðar.
Nú gúggla menn og fá upp ótal slóðir með miklum upplýsingum.
Unga kynslóðin hefur meiri möguleika til að afla sér fróðleiks en mín kynslóð sem var háð því að fá blaðagreinar og bækur inn á sitt borð.
En tilefnið og hvatningin til að gúggla þarf að vera til staðar. Eftir sem áður þarf einhvern sem kyndir upp, skrásetur og miðlar.
Við þurfum með öðrðum orðum enn á þeim að halda sem tendra forvitnina og glæða áhugann. Það gerði Erlendur Haraldsson svo sannarlega. Þess vegna verður minning hans í hávegum höfð.