ERT ÞÚ SAMMÁLA BIRNI VAL?
Björn Valur Gíslason, fyrrverandi þingmaður en núverandi varaformaður VG, segir að eðlilegt sé að almenningur axli afleiðingar bankahruns. Ögmundur, ertu sammála Birni Val?
Sbr. http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/07/24/oheidarlegt-ad-segja-ad-almenningur-geti-sloppid-undan-afleidingum-hrunsins-rikisstjornarflokkarnir-ljuga/
Jóhannes Gr. Jónsson
Auðvitað kemur það niður á öllu þjóðfélaginu á einn eða annan hátt þegar allir bankar eins lands hrynja. En síðan er spurningin - og það er grundavallarspurning í stjórnmálum - að hvaða marki hægt er að láta fjármálabraskara taka skellinn af eigin gjörðum og forða almenningi - þ.e. notendum velferðarþjónustunnar og skattgreiðendum - undan þessum afleiðingum. Þarna á að skilja á milli félagshyggju og frjálshyggju. Ég hef stundum orðað þetta þannig að forgangsraða eigi mannréttindum umfram eignarréttindi. Þeim rökum tefldi ég m.a. fram í Icesave-deilunni.
Þegar á heildina er litið má með sanni segja að með skattkerfisbreytingum hafi okkur tekist að verja lágtekjuhópa og millitekjufólk en hefði mátt takst betur upp hvað varðar endureisn bankakerfisins, svo ekki sé dýpra tekið í árinni! Það er að rísa upp í sömu mynd og áður, sbr., kaupaukaruglið. Síðan má réttilega gagnrýna fyrri ríkisstjórn fyrir að ganga of hart fram í niðurskurði innan velferðarþjóðnustunnar - nær hefði verið að horfa fremur á ýmsa útgjaldaliði og tímabundnar framkvæmdir.
Sú ríkisstjórn sem nú hefur sest á valdastólana lofar hins vegar ekki góðu og sýnist mér stefna í að hún klúðri öllu því sem best var gert hér af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar. Smám saman er að koma í ljós hve herfileg skipti þetta voru .
Það er ljóst að almenningur þarf að halda vöku sinni eins og umhverfissinnar hafa þegar sýnt að þeir hyggist gera. Mér sýnist þörf á velferðarvakt ekki síður en umhverfisvakt.
Ögmundur