ERU 6-19 KRÓNUR EINHVER OFRAUSN FYRIR HANNES SMÁRASON?
Mikið fjaðrafok hefur verið í samfélaginu allt frá því út spurðist um tvo starfslokasamninga og laun forstjóra FL-Group. Helstu strigakjaftar stjórnarandstöðunnar hafa haft uppi hávær öskur um sjúklega græðgi, græðgis- og gróðapungavæðingu, almenningur hefur tjúttað með, menningarvitar hafa tjáð sig um meint gírugheit íslenskra athafnamanna og þóst geta kennt þeim lífsins gildi og gæði með alls kyns ráðum; til að mynda að betra sé að éta eina appelsínu í einu í stað þess að reyna að torga heilu tonni í einum bita. Málflutningurinn allur hefur einkennst af öfund, útúrsnúningum, að ekki sé talað um þekkingarleysi, og svo þung hefur undiraldan verið að jafnvel sumir ráðamenn landsins hafa neyðst til að taka dálítið undir alla vitleysuna.
Ég ætla að leyfa þeim að hvíla í friði sem hafa fengið kærkomna starfslokasamninga og sjá nú fram á áhyggjulaust ævikvöld. Hins vegar vil ég fletta ofan af útúrsnúningunum í kringum launakjör forstjóra FL Group, Hannesar Smárasonar. Heildarupphæðir sem nefndar hafa verið, 4-12 milljóna króna mánaðarlaun og 48-144 milljóna króna árslaun, allt eftir svonefndum rekstrarárangri, kunna að hljóma háar í eyrum margra en þegar þær eu skoðaðar í réttu samhengi og eins og venja er til víðast hvar í hinum siðmenntaða heimi þá er annað upp á teningnum. Á Vesturlöndum sem við miðum okkur gjarnan við eru laun forstjóra og æðstu stjórnenda ekki reiknuð á mánaðar- eða ársgrundvelli heldur út frá mun skemmri tímaeiningum. Oftast er sekúnda lögð til grundvallar enda geta hlutirnir gerst hratt þar sem markaðslögmálin og hinir hæfustu á því sviði fá að njóta sín. Ef miðað er við meðalvinnustundafjölda á mánuði í dagvinnu, 173, þá ber Hannes Smárason úr býtum 6,4 kr. á sekúnduna en getur komist upp í allt að 19 kr. þegar vel gengur. Og er þá nema eðlilegt að spurt sé: Finnst fólki þetta virkilega vera einhver ofrausn?
Oft er sagt að tölur tali sínu máli en það á þá einungis við þegar þær eru settar í rétt samhengi og að forsendur allar séu eðlilegar. Þannig má hæglega slá því upp að til að mynda leikskólakennari hafi 48 milljónir króna í laun, sé miðað við launatöflu 1. jan. 2006, launafl. 121, 4. þrep, á 16 ára tímabili og geti farið upp í 144 milljónir á 48 árum. Þetta eru háar tölur, eða nákvæmlega sömu tölurnar og hjá Hannesi á ársgrundvelli. Sýnir þetta dæmi glöggt hvernig hægt er að blekkja fólk með alls kyns talnaleikjum og þó er samanburðurinn að því leyti ósanngjarn gagnvart Hannesi að það er að sjálfsögðu miklu auðveldara að passa börn og koma þeim til manns en höndla með fjármuni þannig að þeir vaxi og dafni.
Í öllu þessu starfsloka- og forstjóramáli hafa sem sagt verið stundaðar hressilegar talnablekkingar í því skyni að telja fólki trú um þá fásinnu að hér á landi fari launamunur vaxandi. Þessi óhæfa, sem ég vil kalla hryðjuverk, hafa valdið óþarfa óróa í okkar ágæta, stéttlausa velferðarsamfélagi. Er ekki mál að linni?
Jón Ólafsson frá Bisnesi