Eru rökvísar konur ekki kvenlegar?
…eða á að spyrja á hinn veginn, hvort kvenlegar konur séu ekki rökvísar? Um síðustu helgi birtist í Morgunblaðinu örstutt frétt undir fyrirsögninni, Karlar kvenlægari en konur. Þar segir frá meistaraprófsritgerð Önnu Guðrúnar Edvardsdóttur. Um niðurstöður ritgerðarinnar segir í frétt Morgunblaðsins: “Fram kemur að stjórnunarleg hegðun beggja kynja mótast aðallega af kvenlægum gildum. Karllæg gildi eins og samkeppnisvilji, reglufesta, rökvísi og sigurvilji eru aftur á hröðu undanhaldi í menntakerfinu.”
Mín lífsreynsla spannar nú orðið 55 ár. Ef ég dæmi samkvæmt þeirri reynslu sem ég hef aflað mér á lífsgöngnni þá á ég sífellt erfiðara með að skrifa upp á þessa kynjagreiningu sem tíðkast á eðliskostum okkar. Konur og karlar eru vissulega ólík að ýmsu leyti. En er ekki nokkuð langt gengið að segja að rökvísi sé karlægur eðliskostur en ekki kvenlegur? Ég er hræddur um að dætur mínar skrifi ekki upp á það. Þegar á brattann er að sækja búa þær yfir sigurvilja og seiglu. Ekki finnst mér þær síður kvenlegar fyrir vikið.