ESB ER SPENNUVALDUR
Síðustu helgi var mér boðið að sitja haustfund Sósíalistaflokks Hollands sem boðaður hafði verið til undirbúnings þinghaldinu í hollenska þinginu í vetur en það voru þingmenn flokksins ásamt starfsliði sem sóttu hann.
Boðsgestir ásamt mér voru þingmaður Enhedslistans í Danmörku og þingmaður Syriza í Grikklandi sem því miður varð að aflýsa komu sinni á síðustu stundu - af skiljanlegum ástæðtum. En einnig af skiljanlegum ástæðum söknuðum við fulltrúa Syriza, öll forvitin að fræðast frá þeim herbúðum.
Sósíalistaflokkur Hollands er á mikilli siglingu, með 17% í skoðanakönnunum og stefnir upp á við.
Áhyggjur manna af atburðum í Grikklandi voru greinilegar en það sem kom mér á óvart var hve miklar áhyggjur menn höfðu af afstöðu eigin landsmanna og almennt í norðanverðri Evrópu til Grikklands. Nú væri spilað ákaft á að vekja andúð á Grikkjum. Hvers vegna? „Við verðum að borga vegna Grikkja." Þetta væri viðkvæðið!
Sagan kemur upp í hugann. Þegar Evrópusambandið var í burðarliðnum stóðu vonir manna til að þar með væri stigið skref til að draga úr spennu í Evrópu og tryggja friðsamlega framtíð. En menn hafa greinilega farið offari í markaðsvæðingu og ótrúlegri miðstýringu sem náði hámarki með evrunni og sameiginlegri fjármálastefnu. Hugmyndin var að Seðlabanki Evrópu fengi refsivald gagnvart þeim ríkjum sem færu ekki að kröfum hans um framkvæmd stefnunnar.
Nú vitum við -sem alltaf mátti vita - að refsivendinum yrði beitt gegn fátækustu ríkjunum, einsog Grikkjum! Hinir ríku refsa með öðrum orðum hinum fátæku .
Í Grikklandi er vaxandi andúð á Þjóðverjum, ríkustu þjóðinni innnan ESB. Og í Grikklandi er vaxandi andúð á þjóðverjum. Og takið eftir, ´ég vísa í þjóðir, ekki bara ríkisstjórnir. Það er ills viti.
Evrópusambandið er þar með orðið spennuvaldur en ekki fyrirkomulag sem dregur úr spennu einsog lagt var upp með.