EVA JOLY OG BARÁTTAN GEGN SPILLINGU
03.01.2012
Margt gott var sagt í þætti sem Sjónvarpið sýndi um störf Evu Joly og félaga í baráttu gegn spillingu. Jón Þórisson, samstarfsmaður Evu hér á landi, sagði frá íslenska Hruninu og skýrði spillinguna sem því tengdist á markvissan og ljósan hátt.
Að sama skapi voru lýsandi yfirlýsingar margra annarra sem fram komu í þættinum. Nígeríumaður varpaði ljósi spillingarsögu Nígeríu og skýrði hvernig gráðugt alþjóðaauðvald mergsygi auðlindir landsins. Það sem til almennings rynni, færi í neyslu. Þess væri - á sögulegan mælikvarða -skammt að bíða að auðlindirnar væru þurrausnar án nokkurrar fyrirhyggju um uppbyggingu til frambúðar.
Hugarfarið þarf að breytast, sagði sami maður, hvað auðlindirnar áhrærir og sama gildir um spillinguna. Þar gildir að breyta hugarfarinu og smíða jafnframt lagaramma sem þrengir að spillingaröflum.
Sumir hafa lag á því að draga upp einfaldar myndir. Það gerði þessi Nígeríumaður þegar hann gaf lýsingu á lifnaðarháttum auðmanna sem margir ættu tíu hús með mörgum herbergjum. Samt væru þeir bara í einu herbergi í einu, svæfu í einu rúmi og borðuðu af einum diski. Sama ætti við um klæðnaðinn. Maður sem klæddist fleiri en einum jakkafötum í einu væri talinn galinn. Öllum væri ljóst að honum nægðu ein föt - alla vega í einu! Einfalt? Augljóst? Nei, ekki öllum, því svona getur græðgin villt fólki sýn. Af aurum verður margur api segir íslenskt orðtak. Íslendingum er flestum þetta orðtak kunnugt og tamt. En eitt er teoría, annað er praxís! Það eru sannindi sem við þekkjum af biturri reynslu.
Ég vil færa Sjónvarpinu þakkir fyrir að sýna þennan þátt!