EVRÓPURÁÐIÐ: ASSANGE VAR PÓLITÍSKUR FANGI
Nýliðin vika er um margt gleðileg og um sumt söguleg.
Það var söguleg stund þegar Julian Assange, stofnandi Wikileaks, mætti til fundar í Evrópuráðinu í Strasborg og svaraði fyrirspurnum. Tilefni komu hans til Strasborgar var umræða um skýrslu sem mannréttinda- og laganefnfnd Evrópuráðsþingsins hafði gert um hlutskipti Assange í bresku fangelsi undanfarin ár þar sem honum var haldið án ákæru. Þessi skýrsla nefndarinnar var að lokinni umræðu í nefndinni lögð fyrir þingið sem staðfesti þann skilning mannréttinda- og laganefndarinnar að Julian Assange hafi í raun verið pólitískur fangi.
Það sem var gleðilegt og sögulegt var annars vegar að Evrópuráðið tæki þessa afstöðu og rækti þannig það mannréttindahlutverk sem því er ætlað, og hins vegar að ábyrgðarmaður skýrslunnar var íslenskur þingmaður á Evrópuráðsþinginu, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir en hún er varaformaður íslensku þingmannanefndarinnar á þingi Evrópuráðsins.
Síðan má ekki gleyma því að við hlið Julian Assange á fundinum þar sem hann svaraði fréttamönnum og þar með umheiminum sat - og ekki að ástæðulausu - núverandi ritstjóri Wikileaks; sá maður sem hefur borið hita og þunga af starfi Wikileaks og verið í fararbroddi baráttunnar fyrir frelsi Julians Assange um árabil, Íslendingurinn Kristinn Hrafnsson. Þá er rétt að halda því til haga að Julian Assange lagði áherslu á að endanlega ætti hann frelsi sitt því að þakka að allan tímann sem hann var ófrjáls hélt ótölulegur fjöldi fólks málstað hans vakandi. Það væri ekki réttarkerfið sem hefði bjargað sér heldur þessi samstaða og jú vissulega að hann hefði þurft að fallast á að játa ávirðingar, en hverjar væru þær? Að hann hefði verið sá sem hann alltaf hefði gengist við að vera, blaðamaður sem leitaði upplýsinga og kæmi þeim á framfæri.
Þótt Julian Assange hafi verið þvingaður til að fallast á að leita ekki réttar síns gagnvart ofsækjendum sínum, ekki kalla eftir gögnum sem sannað gætu sekt þeirra, þá hafa aðrir sem leita eftir hinu sanna í þessu efni aldrei fallist á slíkt. Og allt þarf á endanum að leiða í ljós hvernig sviksemi og þvingunum var beitt til þess að hafa Julian Assange undir.
Í stað þess að rekja málsatvik í ofsóknum Bandaríkjamanna og þjóna þeirra í Bretlandi, Svíþjóð og víðar á hendur Julian Assange, set ég hér að neðan nokkrar áhugaverðar slóðir frá þessari atburðarás síðustu daga.
Stutt samantekt frá Democracy Now í BNA: https://www.youtube.com/watch?v=hUKGlriwhjU
Blaðamannafundur frammi fyrir heimspressunni:
https://www.youtube.com/watch?v=IYaNscnE7rc
Enn samantekt AP:
https://apnews.com/article/julian-assange-statement-council-europe-5373cfb854474deba0e5799b23cb8d2e
Framlag Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur er mög lofsvert og er það sannfærandi þegar hún segir að sú yfirlýsing Evrópuráðsins að Julian Assange hafi verið pólitískur fréttamaður en ekki njósnari og glæpamaður eins og bandarískir ráðamenn hafa haldið fram fyrir að upplýsa um stríðsglæpi þeirra og bandamanna þeirra, marki mikilvæg tímamót.
Vonandi er þetta til marks um að Evrópuráðið vilji nálgast það hlutverk sem það hefur því miður verið að fjarlægjast seinni tíð, að vera varðstöðustofnun mannréttinda. Hvort Evrópuráðið ber gæfu til að leita þessa uppruna síns á hins vegar eftir að koma í ljós.
Um samþykkt Evrópuráðsins og skýrslu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur:
Íslensk umfjöllun um málið, ekki tæmandi þó:
https://heimildin.is/grein/22818/evropuradsthingid-julian-assange-var-politiskur-fangi/
https://www.visir.is/g/20242628319d/bein-ut-sending-assange-laetur-i-ser-heyra
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/12/thorhildur_sunna_fagnar_miklum_afangasigri/
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.