Fara í efni

EVRÓPURÁÐSÞING OG HLUTSKIPTI KOMMÚNISTAFLOKKS ÚKRAÍNU

Evrópuráðið - Úkraína
Evrópuráðið - Úkraína


Í vikunni sótti ég þing Evrópuráðsins í Strassborg. Margt kom þar til umræðu, uppgangur fasisma í mörgum ríkjum Evrópu og hvernig skyldi  brugðist við, rætt var um samskipti Evrópuríkja og OECD en í því sambandi var fjallað um ýmsa alþjóðlega samninga, staða mála í Úkraínu var rædd, ofbeldi hermanna ISIS í Sýrlandi var fordæmd og áhyggjum lýst vegna aukins flóttamannastraums. Á þinginu var rætt um leiðir til að bæta og efla eftirlit af hálfu Evrópuráðsins með því að samþykktum um mannréttindi og lýðræði sé framfylgt í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Ég tók þátt í þeirri umræðu fyrir hönd míns flokkahóps, svo og í umræðu um menntamál og málefni flóttamanna þar sem áherslan var á hlutskipti barna.

Allt var þetta, og sitthvað annað sem til umræðu kom á þinginu, hið áhugaverðasta og var  lærdómsríkt að lesa skýrslur sem fram voru lagðar. Þær eru vel unnar af færustu sérfræðingum þótt einstakir þingmenn taki að sér að leggja línurnar.
Petro - form Komm - UkrUtan þingsalar fóru einnig fram umræður og fundir sem voru ekki síður áhugaverðir. Sérstaklega athyglisvert þótti mér að hlýða á Petro Symoneko, formann Kommúnistaflokksins í Úkraínu, en flokkurinn var sl.  júlí leystur upp samkvæmt forsetaúrskurði og mál samhliða höfðað gegn einstökum flokksmönnum fyrir landráð. Svo einhliða hefur umræðan verið um Úkraínu að á sjálfu mannréttindaþingi Evrópuráðsins í Strasbourg  hefur það ekki þótt tiltökumál þótt stjórnmálalokkur sé bannaður og má geta þess að Petro Symenenko hlaut 39% atkvæða í síðari umferð forsetakosninganna í Úkraínu árið  1999 en Leonid Kuchenv sem var sigurorð í kosningunum hlaut um 58%. Í síðari kosningum var fylgið minna.

Það sem meira er,  þegar verið var að taka ákvörðun um að vísa Rússum tímabundið úr Evrópuráðinu fyrir afskipti af Úkraínu  birtust í fréttum myndir úr úkraínska þinginu þar sem Symenenko var hrundið með valdi úr ræðustól og hann síðan barinn. Ofbeldi gegn kommúnistum hefur síðan þrásinnis endurtekið sig  innan þings og utan, sjá dæmi þar um hér: https://www.youtube.com/watch?v=93b7oDqaHr0 
https://www.youtube.com/watch?v=ku-yJx9kdlY

Sjálfur er Petro Symonenko frá Donetsk í austurhlutanum. Hann bar Evrópusambandið þungum sökum svo og Nató og Bandaríkin. Sagði hann að Evrópusambandið hefði stutt með ráðum og dáð ríkisstjórn sem hefði hlaupið frá öllum samningum sem hefðu náðst um frið. Og hvers vegna spurði hann, var ekki tekið tillit til þriggja og hálfrar milljónar undirskrifta undir áskorun um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Úkraínu, hvort landsmenn vildu samruna við ESB annars vegar eða efnahagstengsl við Rússland hins vegar. Skotar fengu þjóðaratkvæðagreiðslu, sagði Petro Symonenko, rætt hefur verið um atkvæðagreiðslu í Katelóníu en Úkraínumönnum í austurhluta landsins væri svarað með hernaði. Við erum sjö milljónir af 43 milljónum landsmanna sagði hann. 

Það er umhugsunarefni að málflutningur Symenenkos  skuli ekki hafa ratað inn í fjölmiðlaumræðu á Vesturlöndum. Hef ég trú á því að fengur væri að því að glugga í sögu fasískra hreyfinga í Úkraínu um miðja síðustu öld - fyrir ekki svo ýkja löngu -  og skoða framgöngu slíkra afla í landinu nú!