Fara í efni

EYJU - VIÐTAL


Eyjan 07.05.11

Sjá viðtal: http://vefir.eyjan.is/vidtalid/2011/05/07/ogmundur-jonasson/

Skoðanakannanir sýna minnkandi stuðning við ríkisstjórnina og stjórnarflokkana. Þrír þingmenn hafa yfirgefið þingflokk Vinstri grænna, en einn þingmaður gengið til liðs við ykkur. Meirihlutinn hangir á bláþræði. Mun ríkisstjórnin halda út kjörtímabilið að þínu viti, eða væri nær að rjúfa þing og boða til kosninga?

Ég er ekki á því að rjúfa eigi þing og boða til kosninga nú og ég er því fylgjandi að ríkisstjórnin sitji áfram. Mér er mikil eftirsjá að félögum mínum sem yfirgefið hafa þingflokk VG. En við skulum ekkert gefa okkur að þau verði á öndverðum meiði við ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslu í þinginu á komandi misserum. Við skulum ekki gleyma að þau voru að mótmæla stjórnarstefnunni með því að samþykkja vantraust á ríkisstjórnina. Þeim fannst við hafa brugðist sem velferðarstjórn. Mér þótti að sjálfsögðu miður að þau skyldu samþykkja vantraust og þótti mér meira en nóg að gert af þeirra hálfu þegar þau sögðu sig úr þingflokknum. Líka það þótti mér þó slæmt. En mér finnst ástæða til að minna á þessi tildrög mótmæla þeirra; að þau voru til að árétta gagnrýni á ríkisstjórnina sem þeim þótti ekki standa nægilega vel hina félagslegu vakt. Þeirra mótmæli voru þannig af allt annarri rót en Sjálfstæðisflokksins sem heimtar stórvirkjanir og þjónustulund gagnvart SA og LÍÚ.

Verkefnið nú er að draga velferðarfánann hærra upp eftir stönginni. Eftir því sem hann fer hærra og eftir því sem við stöndum betur í fæturna gagnvart frekju efnamanna í þjóðfélaginu þeim mun traustari verður ríkisstjórnin og meirihlutinn á þingi. Mér sýnist SA hafa rétt sloppið fyrir horn með kjarasamningana áður en þjóðin flautaði þá út af borðinu. Fólk er nefnilega búið að fá meira en nóg af yfirgangi þessara aðila.

Ég leyfi mér að trúa því að stjórnarmeirihlutinn sé þrátt fyrir allt stærri en talinn er með hausunum innan stjórnarflokkanna einna.

Hefur eitthvað verið unnið í því að styrkja stjórnarmeirihlutann með því að fá liðsstyrk einstakra þingmanna eða flokka?

Ekki hef ég tekið þátt í neinu slíku. Þegar minnihlutastjórn VG og Samfylkingar var mynduð í febrúarbyrjun 2009 var ég því fylgjandi að fá Framsókn þar innanbúðar. Enn var ég veikur fyrir þeirri hugsun eftir vorkosningarnar sama ár.  Mér þótti margt gott í hugmyndum Framsóknar og þá ekki síst hins unga galvaska formanns flokksins,  Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, einkum varðandi niðurfærsluleiðina í bankakerfinu. Þetta var hins vegar ekki gert og nú er uppi önnur staða. Mér finnst ríkisstjórnin um margt vera að ná betur saman og hún á að einbeita sér að styrkja viðleitni í þá veru.  Þeir sem nú vilja Framsókn inn í stjórn sjá það til að vega upp á móti einhverjum sem færu út eða mættu missa sín. Ég hef grun um að slíkt sé hugsað til að sveigja ríkisstjórnina til hægri. Það þætti mér afleitur kostur.

Eitthvað hvíslar þó að mér að Framsókn sé ekki umhugað um að komast í ríkisstjórn eins og sakir standa nema þá að stjórnarsáttmálinn væri allur tekinn upp, þar á meðal ESB-málin. Þá væri hreinna að efna til þingkosninga sem ég er andvígur að gert verði nú. Ég held að fyrst og fremst séu það stakir þingmenn í Framsókn sem kunni að ala með sér einhverja drauma um aðkomu að ríkisstjórn og vísa ég þar í Kastljósviðtal við Siv Fiðleifsdóttur nýlega sem sagðist vera búin að sjá að við Jón Bjarnason værum óstöðugir á svellinu og veitti ríkisstjórninni ekki af styrkingu. En hvaðan spyr ég? Frá þeim sem greiddu atkvæði með einkavæðingu bankanna, stóriðjufárinu, skattamisréttinu? Það er þetta sem ég á við þegar ég minni á að ríkisstjórnin getur valið um að styrkja sig á grundvelli jafnaðar og félagshyggju eða ójafnaðar og peningafrjálshyggju.

Er ekki hægt að tala um klofning í röðum Vinstri grænna þegar hvorki fleiri né færri en þrír þingmenn kljúfa sig úr þingflokknum og neita að styðja ríkisstjórnina?

Jú, að sjálfsögðu hefur flokkurinn verið klofinn og þá ekki síst þingflokkurinn. Þar nefni ég ESB-umsóknina sérstaklega, en einnig Icesave, áherslur í efnahags- og peningamálum og kannski líka mismunandi áherslur um beint lýðræði. Sumum þótti gott að Icesave gekk til þjóðarinnar, öðrum þótti það miður og telja að mál af þessu tagi eigi ekki heima hjá þjóðinni. Í mínum huga er þetta grundvallarmál og varðar framtíðarþróun stjórnmálanna á nýrri öld. Ég er mjög eindreginn fylgismaður beins lýðræðis.

Annars eru línurnar ekki alltaf skýrar í þessum efnum, menn geta verið í fylkingum sem standa andspænis hvor annarri um einn þátt en síðan riðlast fylkingar og allt önnur skipting kemur fram varðandi önnur málefni. Ég nefni ESB. Ég greiddi atkvæði með því að ganga til viðræðna við ESB enda hafði ég lýst þeirri afstöðu fyrir kosningar. Það gerðu þeir félagar mínir sem ég átti samleið með í Icesave-deilunni og í andstöðu við AGS hins vegar ekki. Þeir settu ESB meira að segja á oddinn, sumir hverjir.

Þannig að þarna er margt í mörgu. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að viðurkenna staðreyndir máls - reyna ekki að þegja í hel eitthvað sem augljóslega er veruleikinn. En þá verður það líka að segjast að við erum að takast á við þennan ágreining og ósætti og munum vonandi ná landi saman. Ég hef trú á því. Margt er að baki og nefni ég þar Icesave sérstaklega sem var okkur gríðarlega erfitt mál.

Þótt klofningur hafi þannig verið um skeið þá er hann að baki þegar ágreiningur er að baki. Þannig að allt er þetta spurning um málefni. Svo skulum við ekki gleyma hinu að þingflokkur er eitt, og flokkur er annað. Og svo eru það kjósendurnir. Ég held að menn ættu að fara varlega í að alhæfa um þá. Þeir hugsa sitt og eru ekki í eignarhaldi neins.

Þegar spurt verður um samstöðu í framtíðinni þá verður ekki spurt um samstöðu með stofnun; ekki um fylgispekt við stjórnmálaflokk heldur þau baráttumarkmið sem hann er myndaður um. Þess vegna á ekki að skamma fólk fyrir að yfirgefa flokka - eða ganga í nýja - heldur spyrja hvort það sé trútt hugsjónum sínum og loforðum sem kjósendum voru gefin.

Nú segist Þráinn Bertelsson ekki geta stutt Jón Bjarnason sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hvað segir það um stöðu Vinstri grænna í stjórnarsamstarfinu?

Þetta segir það eitt að Þráinn Bertelsson styður ekki Jón Bjarnason. Nú vill svo til að ég styð Þráin Bertelsson til allra góðra verka og Jón Bjarnason einnig og lít ég á þá báða sem samherja mína. Ég er stoltur af Jóni Bjarnasyni fyrir staðfestu hans. Hann er einhver einlægasti og harðdrægasti baráttumaður landsbyggðarinnar á þingi og hefur alla tíð verið. Mér hefur mislíkað mjög hvernig ýmsir fjölmiðlamenn og pólitískir andstæðingar Jóns hafa reynt að ófrægja hann og gera lítið úr verkum hans, algerlega að ósekju.

Ef Jón Bjarnason hefði komið fram öllum þeim málum sem hann hefur reynt að fá framgengt en aðrir viljað hinkra með, til dæmis í sjávarútveginum, þá værum við til dæmis búin að gera strandveiðunum enn hærra undir höfði en þegar er orðið. Þegar Jón Bjarnason ákvað að veita aflaheimildir í tilteknum tegundum utan heilagrar ritningar kvótakerfisins, ætlaði allt af göflunum að ganga. Ekki vegna þess að aflamagnið væri mikið heldur vegna hins, að kerfinu var ógnað. Þegar sumir reyna nú að koma á Jón vafasömum stimplum skulu menn minnast þess að hann er við erfiðar aðstæður að sætta mjög ólík sjónarmið. En verk hans og viðleitni tala sínu máli.  Ergo : Mér finnst Jón fínn. Það segi ég með hliðsjón af verkum hans.

Formaður Framsóknarflokksins segir boðaðar breytingar á lögum um stjórnarráð Íslands vera frumvarp um að losna við Jón Bjarnason úr stóli ráðherra. Ertu sammála því?

Ég ætla engum að vilja fara þá bakdyraleið til að koma Jóni Bjarnasyni úr ríkisstjórn. Enda verð ég ekkert var við slíkt tal nú í seinni tíð að Jón eigi að víkja, enda væri það fráleitt. Þessar hugmyndir stjórnarráðsfrumvarpsins eru byggðar á skýrslu sem upprunalega var unnin af Gunnari Helga Kristinssyni, prófesssor við Háskóla Íslands. Þegar skýrsla hans kom fyrst fram síðastliðið vor gagnrýndi ég hana harðlega opinberlega í blaðaskrifum og hef einnig gert það inn á við. Fannst mér gæta of mikillar píramídahugsunar og miðstýring væri of mikil fyrir minn smekk. En síðan hafa þessar hugmyndir verið að þróast í rétta átt og er það vel.

Styður þú umrætt frumvarp?

Frumvarpið á eftir að þroskast að mínu mati og gerði ég grein fyrir þeim fyrirvara mínum í ríkisstjórn.

Hvað segirðu um þá gagnrýni að þetta frumvarp stórauki völd og áhrif forsætisráðherrans?

Sú gagnrýni á við rök að styðjast að mínu mati.

Þú sagðir þig úr ríkisstjórn á sínum tíma vegna deilna um Icesave-samkomulagið og efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðan tókstu aftur við ráðherraembætti, en engu að síður var fullyrt, meðal annars hér á Eyjunni, að þú og Jón Bjarnason hefðuð ekki stutt Icesave-samkomulagið í þjóðaratkvæðagreiðslunni á dögunum. Um þetta var rætt í þingflokki VG. Geturðu staðfest að þú hafir sagt nei í atkvæðagreiðslunni þótt þú hafir stutt málið á Alþingi?

Frá því Icesave-samningar fyrst litu dagsins ljós hef ég verið því fylgjandi að þróa málið áfram og finna bestu syllurnar til að standa á fyrir Íslendinga hverju sinni. Hin siðferðilega umgjörð þessa máls mótast af ofbeldinu sem reynt hefur verið að beita okkur af hálfu Breta og Hollendinga, með dyggri hjálp Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og því miður einnig Norðurlandanna að Færeyingum undanskildum. Þeir sönnuðu þá reglu að hin smæsti getur verið stærstur.

Ég studdi það á þingi þegar breið samstaða myndaðist um það að mæta Hollendingum og Bretum að nýju með vindinn í seglin að nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu í árbyrjun 2010. Þá kom í ljós að staða okkar var orðin miklu betri enda varð reyndin sú, nýr samningur var margfalt betri þeim fyrri svo munaði gríðarháum upphæðum.

Þegar þessi nýi samningur fór til þjóðarinnar eftir að fimmtungur kjósenda hafði óskað eftir því við forseta Íslands ákvað ég að draga mig í hlé frá umræðunni enda sá ráðherra sem var ábyrgur fyrir framkvæmd kosninganna. Það var mikið gert til þess að þröngva mér til yfirlýsinga um afstöðu mína, ekki síst hér á Eyjunni. Ég hef talsvert um þessi mál fjallað þannig að margir þekkja grundvallarviðhorf mín til málsins á öllum stigum þess en um þessa atkvæðagreiðslu ákvað ég að ræða ekki opinberlega. Ég stóð við það og geri enn.

Málið var til lykta leitt í þjóðaratkvæðagreiðslu og að baki ákvörðun þjóðarinnar stöndum við nú öll saman. Það skiptir nú öllu máli.

Sagt er að andi köldu millum þín og formanns VG. Er það rétt? Eru gamlar væringar úr Alþýðubandalaginu gengnar aftur í VG?

Alþýðubandalagserjur fyrri tíðar verða aðrir að tala um sem betur til þekkja. En hvað okkur Steingrím áhrærir þá höfum við í áranna rás starfað mikið saman og átt mjög náið samstarf. Þannig var það í aðdraganda stofnunar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og um langt árabil. Samstarf okkar hefur ekki verið eins náið í seinni tíð, því er ekki að neita. En ég held að við gerum okkur báðir vonir um að það standi til bóta. Grunnur okkar samstarfs er traustari en svo að við hlaupum mjög langt hvor frá öðrum svo glatt. Enda held ég að hvorugur vilji hafa það þannig.

Hefur forystu VG tekist að halda nægum tengslum við grasrót flokksins? Ýmsir halda því fram að flokkurinn sé að ganga gegn mörgum stefnumálum sínum, t.d. með aðildarviðræðum við ESB.

Við þurfum að gera miklu betur í þessu efni. Eins og ég gat um fyrr greiddi ég atkvæði með aðildarviðræðunum við ESB og stend við þá afstöðu mína enda hafði ég sagt þetta fyrir kosningar. Ég skal þó játa að ég misreiknaði mig að einu leyti og það ekki litlu. Ég horfði til fordæma frá fyrri samningaviðræðum ríkja við ESB og þá ekki síst Noregs en ekki til aðildarumsóknarferlisins eins og það þróaðist gagnvart Austur- Evrópuríkjum á fyrstu árum þessar aldar. Það voru ekki eiginlegar samningaviðræður sem þar áttu sér stað heldur aðlögunarviðræður og því miður erum við allt of djúpt í slíku ferli.

Það segir sitt um hvers konar steingervingseðla Evrópusambandið er að geta ekki horft til þess að við erum aðildarríki á hinu evrópska efnahagssvæði - búin að undirgangast margt í markaðsregluverkinu - og látið reyna á samning við okkur um augljósustu ágreiningsefnin. Og dengja síðan niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nei, þetta vill ESB ekki, heldur draga þetta á langinn á meðan reynt er að egna fyrir okkur með peningastyrkjum og fagurgala. Ég hef viljað að sjálfu viðræðuferlinu verði flýtt og við fengið að kjósa sem allra fyrst um niðurstöðuna. Fyrir þessu hef ég talað og geri enn. Ég skil þá kjósendur okkar sem telja að við séum að svíkja með því að fara á bólakaf í aðlögunarferli í stað þess að drífa málið í kosningu eins hratt og auðið er.

Hvað með loftárásir NATO í Líbíu, hvernig getur ríkisstjórn Vinstri grænna stutt slíkar aðgerðir í ljósi forsögunnar?

VG styður ekki þessar loftárásir. Þær eru ekki í nafni ríkisstjórnar Íslands og ekki í umboði VG.

Varst þú hafður með í ráðum varðandi þann stuðning. Var málið rætt í ríkisstjórn?

Nei, ég var ekki hafður með í ráðum. Ég sat ekki ríkisstjórnarfund þar sem árásirnar voru ræddar.

Hefurðu áhyggjur af því að enn kvarnist úr þingliði VG, til dæmis eftir væringar um kjör þingflokksformanns? Hefur þú sjálfur velt þinni stöðu fyrir þér?

Ég var afar ósáttur við það hvernig þingflokkurinn féll á prófinu gagnvart þingflokksformanni í fæðingarorlofi. Þar var um að ræða grundvallarprinsipp sem átti að vera inngróið í fólk í okkar flokki að virða.

Ég velti minni stöðu fyrir mér ef mér þykir tilefni til. Ég kem ekki auga á neitt slíkt tilefni í augnablikinu.

Þú gagnrýndir ofurlaun í íslenska bankakerfinu fyrir hrun og gagnrýnendur þínir sögðu þig helst vilja reka bankamenn úr landi. Ég var einn þeirra og hlýt í ljósi sögunnar að biðja þig velvirðingar á að hafa deilt á þig fyrir að hafa uppi gagnrýna umræðu á bóluna í bankakerfinu sem síðan sprakk með ósköpum. En nú kemurðu aftur fram og segir að ná eigi þjóðarsátt um launastefnu sem felur í sér aukinn jöfnuð og að hæstu laun verði ekki hærri en þreföld lægstu laun. Er þetta raunhæft markmið og óttastu ekki atgervisflótta til dæmis sérfræðistétta ef þessi yrði raunin?

Þú hefur nefnt þetta við mig fyrr í tveggja manna tali að þarna hafi þér orðið á og nefnir nú enn opinberlega. Mér þykir þú maður að meiri.

Hvað áherslur mínar í launamálum snerti tel ég þær fullkomlega raunhæfar. Ég hef sett fram markmið og nálgun sem mér finnst betri en að sett sé þak á hve há hæstu laun megi vera. Ég vil miklu frekar horfa til jafnaðar innan launakerfisins, að lægstu laun eigi ekki að vera lægri en þriðjungurinn af hæstu launum. Þarna er áherslan á jöfnuð. Hvað er svona óraunhæft við þetta? Ég kem ekki auga á það. Hér erum við að tala um grunnkaup en síðan getur yfirvinna fólks sveiflast þar ofan á eftir vinnuálagi. Læknir og sjúkraliði sem vinna á jólanótt fá að sjálfsögðu greidda sína yfirvinnu og þá umfram okkur hin sem sitjum heima yfir steikinni. Þau þurfa ekki að flýja land vegna slíkra kjara.

En ef við byggjum það inn í kerfið að launagrunnurinn megi ekki vera meiri en þessu nemur þá breytast viðhorfin eftir því. Hinn freki á toppnum verður að horfa til hins sem hefur minnst. Ef hins vegar litið er til skiptanna, er þá ekki rétt að horfa frekar til þeirra sem minnst hafa? Og þá passa að hinir skammti sér ekki umfram það sem réttlátt er? Ég hef ekki séð nein sannfærandi rök gegn þessu. Ég auglýsi þá eftir þeim.

Hefur ríkisstjórnin staðið við fyrirheit sín um skjaldborg fyrir heimilin í landinu?

Ýmislegt hefur verið gert í smíði slíkrar skjaldborgar og hafa margir notið góðs af, fengið úrbætur, aðlögun og niðurfellingar. Fyrningarfrumvarpið sem við fengum samþykkt í haust er einnig framfaraspor. Hins vegar er því ekki að neita að margir eiga við mikla erfiðleika að stríða, vextir eru of háir og margt að gerast í fjármálakerfinu sem ég er ósáttur við og tel að við verðum að setjast yfir. Þannig hafa margir kvartað yfir því að bankarnir taki sér einhliða vald gagnvart lánþegum. Þessar aðfinnslur verðum við að taka alvarlega.

Hvernig hefur að þínu mati tekist til með efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, gagnvart okkur Íslendingum?

AGS var þröngvað upp á Íslendinga. Fyrir samstarfi við AGS hefur hins vegar verið meirihlutavilji á Alþingi og gerum við því eins gott úr veru hans og við getum.  Vera AGS er til sálubótar fyrir hinn fjölþjóðlega fjármálaheim sem vill hafa hér á landi leiðsögumenn sem passa upp á hagsmuni fjármálakerfisins. Ég hef heyrt AGS spyrja mikið út í réttindi í fjármálakerfi og niðurskurð á útgjöldum ríkisins sem hann hvetur ákaft til. Ég hef hins vegar aldrei heyrt fulltrúa sjóðsins spyrja um líðan fólks á spítölum eða hvernig gangi að lifa af örorkubótum.

Það er ekki vegna þess að þetta sé slæmt fólk. Síður en svo. Verkefni þeirra er einfaldlega annað. Þegar AGS hrósar ríkisstjórinni setur alltaf að mér svolítinn hroll. Að einu leyti hef ég þó verið sáttur við AGS og það er hve raunsær hann hefur verið á gjaldeyrisflæðið. EES krefst þess að sjálfsögðu að láta peningana flæða óhindrað í samræmi við fjórfrelsið. En þarna hefur AGS verið á bandi hinna varfærnari manna og er það vel. Þannig að AGS fær ekki falleinkunn í öllu.

Sjá viðtal: http://vefir.eyjan.is/vidtalid/2011/05/07/ogmundur-jonasson/
Sjá Eyju-frétt:http://eyjan.is/2011/05/07/ogmundur-audvitad-er-flokkurinn-klofinn-stoltur-af-joni-bjarnasyni/