Fara í efni

FÆ EKKI SÉÐ AÐ MIÐLUNARTILLAGA RÍKISSÁTTASEMJARA STANDIST LÖG

Umræðan um miðlunartillögu ríkissáttsemjara tekur á sig sífellt undarlegri mynd. Þannig kemst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Eflingu beri að afhenda félagaskrá sína svo fram geti farið atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara án þess að til lykta hafi verið leidd deilan um það hvort miðlunartillaga hans standist lög. Héraðsdómur telur reyndar svo vera í þessu máli sem er undarleg niðurstaða í ljósi þess að fyrir dómi liggur sérstök kæra um lögmæti miðlunartillögunnar sérstaklega.

Að undanförnu hafa ýmsir stigið fram með afdráttarlausar yfirlýsingar um að „enginn minnsti vafi“ leiki á því að sáttasemjari hafi haft heimild til að gera það sem hann gerði.
Ég er í hópi þeirra sem tel að svo hafi ekki verið og hvet til þess að menn skoði gaumgæfilega 27. og 28. greinar Laga um stéttarfélög og vinnudeilur sem kveða á um skilyrði þess að ríkissáttasemjari geti sett fram miðlunartillögu.

Í 27. grein Laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir m.a.: „Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.
Þetta er kýrskýrt. Jafn kýrskýrt og það er að þetta gerði hann ekki.

Í 28. grein segir m.a.: „Skilyrði þess að sáttasemjara sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu, eina eða fleiri, samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi: ... d) að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar.“

Samningar hafa vissulega verið lausir um tíma. En stéttarfélaginu hefur hins vegar ekki gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar. Hvernig geta „aðilar vinnumarkaðar“ beitt þrýstingi? Það geta atvinnurekendur gert með verkbönnum en verkalýðsfélögin með verkföllum.

Þá þykir mér liggja beint við að ríkissáttasemjara beri að hafa í huga hvað felst í hugtakinu „miðlunartillaga“ eða „sáttatillaga“ eins og hún stundum er nefnd. Hugmyndin með henni er að þess sé freistað að sætta ólík sjónarmið eða að miðla málum. Þess vegna má ætla að nafngiftin miðlunartillaga sé til komin.
Hið rökræna í stöðunni væri þá þetta: Ef deila leysist ekki eftir að „þrýst“ hefur verið á um lyktir stígur sáttasemjari fram og teflir fram hugmynd til að miðla málum, ekki hugmynd annars aðilans heldur hugmynd til að miðla málum eftir að átökin hafa harðnað svo mjög að engin lausn er í augsýn. Þetta á hann hins vegar að mínu mati ekki að gera fyrr en í fulla hnefana og þá með samþykki beggja deiluaðila. Því má aldrei gleyma að verkfall er fórn sem fólk færir vegna þess að það telur sig vera ranglæti beitt. Í mínum huga er ranglætið augljóst: Launafólk með innan við 400 þúsund krónur á mánuði (og helmingur þess á strípuðum töxtum) heyr baráttu til að komast af í umhverfi þar sem húsaleiga, rafmagn, hiti og matur éta upp launin nánast áður en þau eru komin í vasann. Og í hverjum fréttatíma heyrum við af dekrinu við dekurhluta samfélagsins. Þar eru 400 þúsund svo smá upphæð að það tekur ekki að ræða hana. Það tekur því ekki fyrr en borga þarf lægst launaða fólki Íslands laun.

Hlutverk ríkissáttasemjara má aldrei verða í því fólgið að ganga erinda aðila sem krefjast þess að miðstýrð ákvörðun þeirra skuli ganga eftir. Þar með væri frjáls samninga- og verkfallsréttur út af borðinu.
Miðstýrðir samræmdir kjarasamningar fyrir allan vinnumarkaðinn geta vissulega átt rétt á sér en þá eiga aðeins þeir að vera með í slíku samfloti sem eru þar af fúsum og frjálsum vilja.

Þessi mál ræddi ég í eftirmiðdagsþætti Bylgjunnar í dag: https://www.visir.is/k/1b915cf0-f6b7-4a04-9411-3161c05415d2-1675704045637

Mikil átök stóðu um þessi mál á Alþingi og á vettvangi vinnumarkaðar árið 1996. Að þessum deilum vék ég í bók minni Rauða þræðinum og vísa ég hér í þá umfjöllun svo og hitt hve pólitísk deilan er bæði fyrr og nú: SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN Á THATCHER-LÍNUNNI GEGN LAUNAFÓLKI