Færir Landsbankinn okkur EM í handbolta?
Óskandi væri að Ríkisútvarpið endurskoðaði afstöðu sína til kostunar dagskrárliða. Auglýsingar eiga að heita auglýsingar og birtast undir þeim formerkjum í auglýsingatímum sjónvarps og útvarps. Kostun heitir það hins vegar þegar auglýsandanum er leyft að líma sig við einstaka dagskrárliði með yfirlýsingum um að viðkomandi dagskrá sé þeim að þakka: Í kvöld var okkur sagt að "Landsbankinn færði okkur EM í handbolta". Verstu tilvik kostunar eru þegar söluaðilar nátengdir umfjöllunarefninu eru kostunaraðilar. Þá vakna einnig spurningar um hvort og þá að hvaða marki hagsmunatengsl stýri dagskrárgerðinni. Í fyrsta lagi hvort dagskrárefnið yfirleitt hefði verið búið til án hvatningar frá kostunaraðilum og í öðru lagi áhrif á innihald dagskrárinnar. Dæmi um þetta er þegar Húsasmiðjan kostar þátt um byggingarvöru og Blómaval um garðrækt. Síðan eru það ímyndarkaupin. Mengandi stóriðjufyrirtæki kosta iðulega þætti um náttúruna, jafnvel náttúruvernd.
En þegar þetta dæmi er gert upp má spyrja hvort Ríkisútvarpið sé ekki að lúta lágt fyrir litla peninga? Ekki svo að skilja að lúta eigi lágt fyrir mikla peninga. Ríkisútvarpið leggur án efa talsvert fé í útsendingar frá EM í handbolta. Hvers vegna leyfa Landsbankanum að fara með þau ósannindi að hann standi straum af öllum þessum kostnaði? Eða gerir hann það ef til vill? Fróðlegt væri að fá það upplýst.