FAGLEGT? HLUTLAUST?
Eftir að hafa heyrt kvöldfréttir RÚV (9. feb) vil ég bæta aðeins við þann póst sem ég sendi fyrr á síðu þína. Í fréttum spiluðu þeir orð þín frá í gær eða fyrradag úr Kastljósi um að þú hafir verið eini maðurinn á þingi sem hafir andmælt lagagrein um að lögbinda lífeyrissjóði til að taka hámarksvexti á markaði. Þegar farið er á Alþinigsvefinn og þar kemur í ljós að þú andmæltir þessu ákvæði þegar þú gerðir grein fyrir atkvæði þínu um 7. gr. frumvarpsins. Þar sagðist þú ekki geta stutt þessa breytingu og sast hjá við atkvæðagreiðslu um hana þrátt fyrir að þú styddir lögin að öðru leyti. Í samhengi lýðræðisins má segja að þitt sjónarmið hafi orðið undir atkvæðum allra hinna 55 sem greiddu atkvæði. Ekki einn maður á þingi greiddi atkvæði gegn þessari grein þegar þeir áttu þess kost. Allir voru í „já-liðinu" eins og RÚV kallar það - nema þú sem tjáðir andstöðu þína. RÚV nefndi Jón Baldvin sérstaklega til sögunnar sem eina manninn sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, en hann greiddi atkvæði með þessari grein líka. Það gerðu það allir nema einn sem sat hjá og andmælti. Sem er einmitt það sem þú sagðir í Kastljósi - að þú hefðir andmælt einn. Í því samhengi er fréttaflutningur RÚV sérkennilegur í meira lagi. Er eðlilegt að gera heila frétt um að tilvitnun standist ekki en greina ekki frá því sem efnislega er vísað til í ummælunum? Það er varla hægt að kalla þetta hlutlausa og faglega umfjöllun.
Árni V.