FARIÐ FRÁ SÝRLANDI, LYKILLINN ER Í IMRALI!
Kúrdar í Tyrklandi eru miður sín yfir innrás Tyrkja í Norður-Sýrland sem er til höfuðs byggðum Kúrda í Rojava. Þetta hef ég fengið að heyra á fundum mínum með talsmönnum Kúrda í Tyrklandsheimókn minni einsog við var að búast. Skilaboðin eru skýr til tyrkneskra stjórnvalda: Hverfið með innrásarliðið á brott, lykillinn að lausn er í Imrali.
Það sem Tyrkir nú hafast að og eru að undirbúa er að flytja ISIS-liða á brott frá Idlib, þar sem þeir söfnuðust saman á flótta unda sýrlenska hernum, til Rojava, þar brjóti þeir Kúrda á bak aftur og myndi eins konar stuðpúða sunnan landamæra Tyrklands.
Samkvæmt svokölluðu ASTANA-ferli, samkomulagi Sýrlendinga, Írana, Rússa og Tyrkja frá því í október, stundum kennt við Soci, Rússalndsmegin við Svartahafið, skyldu Kúrdar færðir fjær landamærum Tyrklands en jafnframt skyldu þessi stórveldi beita sér gegn hryðjuverkamönnum.
ISIS/DAESH liðið í Idlib er þar undir verndarvæng Tyrkja sem auk þess eru farnir að flytja það til landmærahéraðanna þar sem Tyrkir réðust nú síðast inn. Sami leikur var áður leikinn í Afrin eftir innrás Tyrkja þar. Og viti menn, Merkel Þýskalandskanslari hefur boðið aðstoð Þjóðverja til uppbyggingar í sömu héruðum á forsendum innrásahers Tyrkja. Það myndi einhver kalla hlutdeild í stríðsglæpum. Þessi einhver er í það minnsta ég.
Sýrlensk stjórnvöld og rússnesk hafa andæft þessum flutningum og er vaxandi spenna á milli þeirra og Tyrkja. Hefur komið til átaka þar sem sýrlenskir hermenn hafa fellt tyrkneska.
Allt þetta gerist á forsendum stórveldahagsmuna.
Í þessu samhengi segja Kúrdarnir: Hlustið á okkur, lykillinn er í fangelsinu á Imrali eyju. Sá lykill er í hendi Erdogans, forseta Tyrklands. Sannast sagna var tónninn í yfirlýsingu hins fangelsaða Kúrdaleiðtoga frá því í vor sannfærandi um góðan ásetning: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thegar-vopnin-eru-kvodd