FARNIR AÐ LÍKJAST SJÁLFUM SÉR
Birtist í DV 30.08.13.
Nú líður að því að hagræðingarnefndin margrómaða skili tillögum sínum um sparnað og niðurskurð hjá hinu opinbera. Um svipað leyti lítur fjárlagafrumvarpið dagsins ljós. Fáar vísbendingar eru um hvað í vændum er hvað varðar framlag til samfélagsþjónustunnar. Báðir stjórnarflokkarnir hafa þó lofað því að styrkja innviði samfélagsins og nægir í því sambandi að vísa til þverpólitískrar vinnu um málefni löggæslunnar sem kynnt var í apríl en niðurstaðan úr þeirri vinnu var sú að auka yrði framlag til löggæslunnar um rúma þrjá milljarða á ári. Öll þekkjum við loforðin um að styrkja heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið að ekki sé minnst á loforð og heitstrengingar um niðurfærslu lána, nú síðast ítrekað af forsætisráðherra í byrjun vikunnar. Hvernig á að fjármagna þær aðgerðir er enn hulin ráðgáta.
Frá samfélagi til eignafólks
Nú bregður svo við að nánast allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum ganga út á að draga úr fjárhagsgetu ríkissjóðs og þar með að standa við hin sveru loforð. Þannig ákvað stjórnarmeirihlutinn að afsala ríkissjóði auðlindatekjum frá útgerðinni uppá tíu milljarða á yfirstandandi ári og því næsta. Það var að sögn gert vegna þess að útgerðarfyrirtækin væru skuldsett og aðþrengd. Eflaust er vafasamt að alhæfa um stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og þá einnig af hvaða rót skuldsetning þeirra er. Ein rót efnahagshrunsins á sínum tíma var án efa sú að „verðmæti" af óveiddum afla framtíðarinnar voru færð upp úr sjónum og fjárfest í fjármálafyrirtækjum sem síðan fóru í þrot. Kvótaveðin voru þannig glötuð og orðin að innistæðulausri skuld. Útgerðarfyrirtækin hafa síðan hamrað á því að þetta verði að hafa í huga þegar gjaldtaka fyrir aðgang að sjávarauðlindinni er ákveðin. Við hljótum hins vegar að líta svo á að mótun framtíðarstefnu í auðlindamálum verði byggð á heildarhagsmunum og almennri greiðslugetu sjávarútvegsins.
Síðan kom það jú í ljós eftir allan harmagrátinn innan þings og utan að ekki eru fyrirtækin eins illa sett og margir vildu vera láta. Þannig greiddi útgerðarfyrirtæki í Vestmannaeyjum eigendum sínum nýlega arð upp á eitt þúsund og eitt hundrað milljónir króna og frá Samherja berast fréttar af meiri gróða en nokkru sinni! Þessir peningar, sem eru til komnir vegna sameiginlegrar eignar þjóðarinnar, hefðu betur ratað niður í tómann ríkisvasann.
Fleiri dæmi mætti nefna um gjafmildi ríkisstjórnarinnar í garð hinna aflögufæru á meðal vor. Þannig var eitt af fyrstu verkum hennar að afsala ríkissjóði hálfum öðrum milljarði með því að falla frá sköttum af ferðaþjónustu, sem er jú sú atvinnugrein sem best blómstar um þessar mundir.
Lítilmagnar ríkisstjórnarinnar
Þetta skilaði ríkissjóði rúmum 6 milljörðum árið 2012. Munar um minna.
Forsíða DV síðastliðinn mánudag sagði sína sögu um þennan auðlegðarskatt. Á myndrænan hátt sáum við fyrir hverja þessi ríkisstjórn starfar. Birtar voru myndir af nokkrum greiðendum skattsins, stóreignafólki, skjólstæðingum þessarar ríkisstjórnar.
Sér til málsbóta sagði ríkisstjórnin að auðlegðarskatturinn hefði verið tímabundin ráðstöfun en auk þess væri hann ósanngjarn, eignamarkið væri of lágt. Fjármálaráðherrann bætti við að álitamál væri hvort skatturinn stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar! Öllu var tjaldað til svo verja mætti hina skattpíndu lítilmagna.
Þessu er til að svara að ef eignamörk skattsins eru of lág þá má að sjálfsögðu endurskoða þau. Sjálfum finnst mér ekki rétt að gera greinarmun á einstaklingum og hjónum og fyrir mitt leyti vil ég ekki þvinga einstakling út úr íbúðarhúsnæði eftir fráfall maka. Skatturinn má ekki verða þessa valdandi. En gleymum því ekki að hann kemur aðeins á hreina eign umfram framangreind mörk. Einsklingur sem á 85 milljón króna hreina eign greiðir þannig aðeins 1,5% af 10 milljónum, ekki allri upphæðinni. Það gerir 150 þúsund krónur.
Vissulega var skatturinn tímabundinn en ég er ekki í nokkrum vafa um að fyrrverandi ríkisstjórn hefði framlengt hann. Á það má benda að niðurskurður á útgjöldum hins opinbera var einnig tímabundin ráðstöfun. Og til endurmats eins og flest annað.
Nú þarf að spyrna við fótum
Að sjálfsögðu er eðlilegt að ný ríkisstjórn vilji endurmeta sitthvað í tekjuöflun og útgjöldum ríkisins. Hins vegar er hrikaleg vísbending um áherslur þessarar ríkisstjórnar að nánast allar aðgerðir hennar eru í þágu stóreignafólks og á kostnað lágtekju- og millitekjuhópa. Þetta minnir orðið óþægilega á samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 1995 til 2007. Skattkerfisbreytingar sem gerðar voru á því tímabili voru undir nákvæmlega sömu formerkjum og nú.
Þessir tveir stjórnmálaflokkar, sem öðrum fremur voru ábyrgir fyrir hruninu og þeirri misskiptingu í þjóðfélaginu sem einkenndi árin upp úr aldamótum, eru því miður farnir að taka á sig sína gamalkunnu mynd. Nú þarf fólk að búa sig undir að setja niður hælana og spyrna við fótum.
http://www.dv.is/blogg/ogmundur-jonasson/2013/8/30/farnir-ad-likjast-sjalfum-ser/