Fátæku fólki til viðvörunar?
Hvað er eiginlega að gerast hjá Reykjavíkurborg? Í myrkri fortíð voru lögbrjótar hengdir öðum til viðvörunar. Nú er að verða daglegt brauð í borginni að fátækt fólk sé borið út úr íbúðarhúsnæði með lögregluvaldi, sbr. frétt DV í gær; og gleymum ekki að fólkið er borið út úr félagslegu íbúðarhúsnæði í eigu borgarinna! Er þetta gert fátæku vanskilafólki til viðvörunar? Er þetta ef til vill ný innheimtuaðferð hjá Reykjavíkurborg? Þegar öryrkinn var borinn út fyrir stuttu síðan – sem frægt varð vegna mótmæla þinna Ögmundur – tók Íhaldið málið upp í borgarstjórrn. Batnandi mönnum best að lifa hugsaði ég. En auðvitað kom í ljós í umræðunni að talsmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu það fyrst og fremst að leggja til málanna að óskapast yfir því að skuldir viðkomandi einstaklings hefðu fengið að safnast upp. Hvernig fær það staðist að slíkt sé látið viðgangast, spurði Vilhjálmur Þ. í hneykslunartón. Nei það er er félagshyggjan sem hér þarf að standa vaktina. Það sýnist mér R-listinn ekki gera og það er alvarlegt mál. Hnefann í borðið – ég stend með þér í þessu máli. R-listinn verður að axla félagslegar skyldur sínar.
Hafsteinn Orrason