Fara í efni

FBI, WIKILEAKS OG ÍSLAND ENN TIL UMRÆÐU

SMUGAN - -  LÍTIL
SMUGAN - - LÍTIL

Birtist á Smuginni 12.03.13.
Koma lögreglumanna frá bandarísku Alríkislögreglunni, FBI, í ágúst árið 2011 hefur að undanförnu verið í brennidepli umræðunnar, nú síðast vegna fyrirspurnar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um málið. Forsaga málsins er sú að Innanríkisráðuneytið stöðvaði samstarf íslenskra lögregluyfirvalda við FBI þegar í ljós kom að réttarbeiðni sem bandarísk dómsmálayfirvöld höfðu lagt fram fyrr um sumarið rúmaði ekki þá lögregluaðgerð sem þeir hugðust framkvæma. Réttarbeiðni snýst um ósk erlends lögregluliðs um aðstoð vegna rannsóknar sakamáls. Í beiðninni þarf að koma fram til hvaða lögregluaðgerða beiðnin á að ná og að hverju rannsóknin lýtur. Sé um að ræða rannsókn á mögulegum brotum sem ekki teljast til refsibrota hér á landi er beiðninni umsvifalaust hafnað. Ef eðli rannsóknarinnar breytist eftir að réttarbeiðni er lögð fram er iðulega sett fram viðbótarréttarbeiðni. Ef um grundvallarbreytingu er að ræða á lögregluaðgerð frá því sem sagði í upphaflegri réttarbeiðni þarf nýja réttarbeiðni. Svo einfalt er það. Réttarbeiðni er annað og meira en formsatriði.

Yfirvofandi tölvuárás að sögn FBI

Réttarbeiðni sú er lögð var fram af hálfu bandarískra lögregluyfirvalda í júní 2011 sneri að lögreglurannsókn á hugsanlegri tölvuárás á Ísland, sem FBI hafði þá sagt vera yfirvofandi. Koma Bandaríkjamanna í ágúst sneri hins vegar að sakamálarannsókn í Bandaríkjunum sem íslenskur maður hafði boðið fram aðstoð sína við. Niðurstaða Innaríkisráðuneytisins skýrist af því að um var að ræða nýtt mál - allt annars eðlis en fyrra málið. Þess vegna var lögreglusamvinnan stöðvuð. Fyrri réttarbeiðnin rúmaði ekki þær aðgerðir sem fyrirhugaðar voru í ágúst og hvorki hafði verið lögð fram ný réttarbeiðni né viðbótarbeiðni.

Óháð því hver hefði átt í hlut

Í umræðum á Alþingi, bæði í þingnefndum og í sérstakri umræðu um málið skýrði ég niðurstöðu Innaríkisráðuneytisins. Aðspurður hvort máli hefði skipt hver átti í hlut í bandarísku sakamálarannsókninni kvað ég svo ekki vera. Þetta er grundvallaratriði.
Hitt væri annað mál að okkur hlyti að verða umhugsunarefni að margt bendir til þess að bandarísk dómsmálayfirvöld hafi þarna verið að gera tilraun til að soga íslenska lögreglu inn í saksókn á hendur Wikileaks samtökunum sem frá vormánuðum 2010 hafa dreift upplýsingum og myndefni  sem hefur komið illa við Bandaríkjastjórn - ekki síst upptökur sem sýna stríðsglæpi bandarískra hermanna í Írak. Á þessu vakti ég athygli í fyrrgreindum umræðum á vettvangi Alþingis.

Krafa um þjónkun

Ekki vakti þetta lukku hjá öllum. Þótti sérstaklega fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu það vera óhæfu hina mestu að ræða málin með hliðsjón af þeim pólitíska þætti sem komið hafði fram, það er að um rannsókn á Wikileaks væri að ræða. Svo var að skilja að við ættum að vera ónæm fyrir þessum mikilvægu upplýsingum, láta nægja að sýna stórveldinu þjónustulund í hvívetna, eða jafnvel þjónkun. En ég spyr: Hefði fólki þótt viðeigandi ef íslensk lögregla hefði sogast inn í saksókn á hendur Wikileaks; jafnvel blanda ungum íslenskum manni í málið; setja upp gildru til að kalla fram „sönnunargögn" í vafasömu máli bandarískra yfirvalda gegn Wikileaks?

Að verða þátttakandi í þöggun

Hér þarf hver  og einn að spyrja sig samviskuspurninga: Stend ég með þeim sem vilja koma í veg fyrir að efni um Íraksstríðið sem sýnir stríðsglæpi og annað ofbeldi verði komið á framfæri við heimsbyggðina eða ekki? Sjálfur taldi ég, og tel enn, að þetta efni hafi átt ríkt erindi við almenning um allan heim. Og það sama mat lögðu flestir fjölmiðlar á málið - eðlilega.

Siðlaust glapræði

En svari hver fyrir sig. Sjálfum hefði mér þótt verra en slæmt að sogast inn í málssókn sem í reynd snerist fyrst og fremst um ritskoðun. Mér hefði þótt það vera siðlaust glapræði. Það breytir því ekki að samstarfi við FBI var ekki hafnað á þessum forsendum heldur þeim sem áður greinir; aðgerðir þeirra voru allt annars eðlis en þær sem tilgreindar höfðu verið í framlagðri réttarbeiðni. Þeir hefðu þurft að senda inn nýja beiðni. Hún hefði komið til skoðunar. Þá hefðu eflaust þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð komið til álita.

http://visir.is/undrandi-og-leid-eftir-fbi-fund/article/2013130319727