FEIMINN FLOKKUR
19.04.2013
Í tvígang hef ég beint sjónum að því hvert menn vilji halda á komandi kjörtímabili varðandi skatta og hef ég minnt á að ekki sé annað að heyra en að Sjálfstæðisflokkurinn vilji koma á svipaðri stefnu og hann gekkst fyrir í aðdraganda hruns með aðstoð Framsóknarflokksins. Þá var staða lágtekjuhópa og millitekjuhópa SKERT en staða hátekjuhópa var BÆTT.
Þessu var hins vegar snúið við í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Í fyrra skiptið sem ég hóf máls á þessu, í kosningaþætti RÚV, brást varaformaður Sjálfstæðisflokksinas, Hanna Birna Kristjánsdóttir, ókvæða við, sagði mig fara með rangt mál og bauðst til þess að „útskýra það sérstaklega" fyrir mér baksviðs eftir þáttinn hver raunveruleikinn væri. Með öðrum orðum, treysti sér ekki til að ræða málið opinberlega.
Í síðara skiptið tók ég málið upp við formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, í kosningaþætti á Stöð 2. Hann reyndi að drepa málinu á dreif og svaraði engu þegar ég skoraði á hann að koma til opins umræðufundar um málefnið.
Í báðum þáttunum var Eygló Harðardóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, þátttakanadi í umræðunum en kaus að tjá sig ekkert um málefnið. Talaði bara á almennum nótum um að séð yrði til þess að allir hefðu það betra og allt yrði gott ef aðeins Framsókn fengi góða kosningu, nokkuð sem við heyrðum fyrir hverjar einustu kosningar í aðdraganda hruns. Eftirleikinn þekkjum við.
Fróðlegt verður fylgjast með frekari viðbrögðum formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins varðandi skattastefnuna og þá hvort þau treysti sér til þess að ræða staðreyndir þessa máls eða verði áfram feimin við málefnið, neiti að ræða bæði arfleifð sína og þá áform sín komist þau til valda.
Einvern veginn finnst mér að kjósendur eigi þetta ekki skilið.
http://smugan.is/2013/04/ogmundur-skorar-a-bjarna-ad-leggja-spilin-a-bordid-i-skattamalum/
http://smugan.is/2013/04/ummaeli-bjarna-kalla-a-kertafleytingu-i-klosettskal/