Fara í efni

FÉLAGIÐ HUGARFAR LEITAR EFTIR ATHYGLI OKKAR

HUGARFAR LOGO 3
HUGARFAR LOGO 3
Fyrir nokkru fengum við í þingflokki VG athyglisverða heimsókn tveggja kvenna. Reyndar held ég að allir þingflokkar hafi fengið þessar ágætu konur í heimsókn. Þær voru að kynna okkur félagið HUGARFAR en það er félag fólks sem orðið hefur fyrir heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið.

Talskonur félagsins sögðu að fólk sem yrði fyrir slíkum áföllum bæri skaðann ekki utan á sér og önnur þeirra greindi okkur frá bílslysi sem hún varð fyrir með þeim afleiðingum að hluti heilans varð óvirkur, sjónin hefði skerst, lyktarskynið horfið, minnið ekki sem áður og stöðug og viðvarandi þreyta.

Heilbrigðiskerfið sinnti þeim sem orðið hefðu fyrir slíkum áföllum ekki sem skyldi og hefði félagið Hugarfar verið stofnað til að fá úr þessu bætt. Staðreyndin væri sú að með faglegri vinnu mætti stórbæta heilsu þessa hóps og vinna til baka það sem tapast hefði í áfallinu.

Liður í starfi félagsins nú væri vitundarvakning. Þess vegna væru talsmenn félagsins nú komnir til viðræðna við stjórnmálamenn, ekki til að biðja um annað á þessu stigi en skilning á málefninu.
En meira væri í vændum, ráðstefna á Grand Hótel, föstudaginn  18. mars frá kl. 9:00-11:45. Fyrirlesarar ráðstefnunnar muni útskýra áhrif heilaskaða á einstaklinga og fjölskyldur og síðan möguleg endurhæfingarúrræði í boði hérlendis og erlendis. Aðalfyrirlesari verði Kevin Pearce, fyrrum atvinnumaður á snjóbrettum og stofnandi Love Your Brain samtakanna.

Mér finnst þetta vera aðdáunarverð sjálfsbjargarviðleitni sem mikilvægt er við styðjum. Fyrsta skrefið er að leggja eyrun við fræðslu og upplýsingum um heilaskaða sem er okkur flestum hulinn.