FER SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN LÍKA?
Athyglisvert að horfa á Silfur Egils í gær:
Fyrir utan andleysi þátttakenda (fyrir utan Guðfríði Lilju), þá var sláandi að heyra hinn pólitískt hugrakka Lúðvík Geirsson, lýsa því yfir einsog ekkert væri að tillagan um deiliskipulagið sem kosið var um hefði ekki komið frá bæjarstjórninni, heldur frá Alcan. Geta fyrirtæki lagt fram tillögur um deiliskipulag og fengið fram íbúakosningu?
Annað athyglisvert var að Lúðvík hét því að þessi niðurstaða skyldi gilda út kjörtímabilið, það er að segja næstu þrjú ár. Ég heyrði ekki betur en hann segði einnig að þetta tiltekna deiliskipulag hefði verið fellt og mátti skilja að reyna mætti aftur með annað!
Í þriðja lagi kom fram kapítalisti nokkur, Margfrét Pála, sem er með margar vinnukonur í sínu fyrirtæki og kvartaði yfir rekstri hins opinbera. Hvað skyldi hún greiða sínum vinnukonum?
Varðandi bankana sem munu fara úr landi ef ekki skattalöggjöfin er einsog þeir vilja hafa hana. Er ekki aðallega verið að tala um eigendurna? Borga ekki útibúin skatta í þeim löndum þar sem þau eru rekin. Vilja eigendur bankanna bara vera Íslendingar, að því tilskyldu að þeir fái vilja sínum framgengt? Hver er á munurinn á þeim og Alcan? Er það ekki ofbeldi að tala í hótunum? Myndast kauptækifæri ef "bankarnir" fara? Taka þeir með sér útibúin? Starfsfólkið? Byggingarnar? Þjónustuna? Eignirnar? Hverjir verða eftir? Bara Íslendingarnir? Verða þá allir atvinnulausir? Verða allir fátækir? Mun Hannes Hólmsteinn fara með þeim?
Það er ekki verið að tala um þjóðnýtingu, heldur skattalöggjöf einsog er í nágrannalöndunum. Er Sjálfstæðisflokkurinn farinn að beita lýðskrumi? Hræðsluáróðri? Mun Sjálfstæðisflokkurinn fara líka?
mkv
Hjörtur