Fara í efni

FERÐALEIKHÚS OECD KOMIÐ

Haustið er tími leikhúsanna. Bæði Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið hafa kynnt metnaðarfulla dagskrá vetrarins. Sýningar hefjast innan skamms. Eitt er það gamanleikhús sem alla jafnan tekur forskot á sæluna. Þessi leikhópur kemur frá háborg evrópskrar menningar, París. Þetta er ferðaleikhús OECD drengjanna. Sýningarnar er haldnar í húsakynnum, eða með aðkomu fjármálaráðuneytisins. Í forsetastúkunni situr fjármálaráðherra í það og það skiptið umkringdur sérfræðingum íslenskum. Þótt nú sitji ríkisstjórn sem á þann draum að vera öðru vísi en fyrri ríkisstjórnir er leikið í sama húsi, og enn á ný er uppfærð á vegum OECD skrumsæling veruleikans. Enn er boðið upp á klassík úr leikhúsi fáránleikans, og fjölmiðlarnir dansa með, ókrítiskir og valdhlýðnir.  
Er ekki tími til kominn að endurskoða samskiptin við OECD? Er ekki kominn tími til að koma þessum leikhópi í tengsl við veruleikann á Íslandi? Það er ekki hægt að taka mark á svokallaðri úttekt OECD á íslenska efnahagskerfinu og alls ekki á pólitískum vangaveltum leikendanna frá París á innviðum íslensks samfélags. Það er kominn tími til að kryfja gamanleikinn til mergjar. Fá upplýsingar um það hvaða sérfræðingar bera gögnin í sérfræðingana, hverjir það eru í fjármálaráðuneytinu, í Seðlabankanum, í Háskólanum og í Hagstofu Íslands, sem bera pólitíska ábyrgð á túlkun skrifinnanna frá París. Og láglaunamennirnir á fjölmiðlunum verða að temja sér að afla sér upplýsinga áður en þeir láta túlka fyrir sig veruleikann, ella verða fréttirnar áfram kranaviðtöl.  
Árið 2006 gekk gamanleikur OECD í Reykjavík í stórum dráttum út á að mæra íslenska hagkerfið, sem þeir segja nú að hafi verið byggt á sandi. "Continue financial sector liberalisation so as to foster growth and stability" er einn frasinn sem þeir notuðu 2006. "The successful liberalisation of the financial sector could be completed in various ways. First, distortions in the housing market need to be removed...Finally, to improve the financing innovative star-ups, consideration should be given to whether goverment-sponsored investments funds should be run along private-sector lines." Þetta er líka frá 2006, og svo leggja gamanleikararnir til að Íbúðalánasjóður verði lagður niður í þáverandi mynd, og umsvif banka á íbúðalánamarkaði aukinn! Og tillögurnar eru fleiri, og fyndnari. Það er eins og Jean-Baptiste Poquelin skrifi öll þau stykki sem þeir setja upp í Arnarhváli.   Í skýrslunni 2008 hét það í gamanleik OECD að "The Icelandic economy is prosperous and flexible. With its per-capita incomE growing...it is now the fifht-highest among member countries...This impressive performance is attributable to extensive structural reforms that deregulated and opened up the economy, therby unleashing entrepreurial dynamism, as evidenced by an aggressive expansion of Icelandic companies abroad."
Og áfram í skýrslunni árið 2008: "So far, Iceland's financial institutions have weathered the storm well...supervisory and rating agencies consider that the financial system is broadly sound. Stress tests suggest that the banks have adequate capital to withstand large credit and market shocks." Og gullkornin eru fleiri og eitraðri í ljósi dagsins í dag.   Ef einstaklingarnir sem hingað komu til að setja upp gamanleikinn OECD Economic survey of Iceland 2009 bæru virðingu fyrir stofnuninni sem greiðir þeim launin hefðu þeir átt að biðjast afsökunar á skýrslum sínum nokkur undanfarin ár. Og þeir hefðu átt að taka íslenska gagnabrunna sína í gegn. Efnahagsúttektin er eitt, annað eru til frasakenndar og pólitískar ályktanir leikendanna um heilbrigðiskerfið íslenska, en ég treysti því Ögmundur, að þú takir syrpu á OECD mönnunum og íslenskum handlöngurum þeirra varðandi heilbrigðismálin.   Eitt er að þurfa að lifa við yfirþjóðlegt vald alþjóða kapítalismans í gervi IMF, annað að þurfa að hlusta á krítiklausa umfjöllun í nefskattsmiðlum Páls Magnússonar, en verst er að sjá fjármálaráðuneytið gapa athugasemdalaust upp í gin gamanleikaranna frá París.  
Ólína